Litli Turninn er skemmtileg afþreying [Gagnrýni]

Að eiga snjallsíma í dag er ekki ólíkt því að vera með leikjatölvu í vasanum þar sem óendanlega mörg leikjaforrit hafa verið gerð, mörg hver alveg afskaplega ávanabindandi.

Einn slíkur leikur er Tiny Tower, eða Litli turninn. Eins og oft vill verða frétti ég af þessum leik frá félaga mínum sem var alveg dolfallinn yfir þessum einfalda leik. Ég er yfirleitt ekki ginkeyptur fyrir nýjustu leikjaæðunum. Spila ekki Sims á Facebook, né dottið inní margra tíma spilun á Angry Birds, en Litli turninn náði mér.

Leikurinn gengur út á það að reka háhýsið, þ.e. turninn, af myndugleik og reglusemi. Þegar nýjar hæðir eru byggðar er hægt að velja hvort þú vilt íbúðir eða fyrirtæki. Fólk, kallað Bitizens, flytur svo inn í íbúðirnar og þú finnur vinnu handa þeim í einhverju af fyrirtækjunum í turninum.

Bitizens eru misvel gefnir fyrir hin ýmsu störf og betra að finna hið fullkomna starf fyrir þá. Hefur þetta áhrif á hversu vel gengur að fylla á lager fyrirtækjanna, sem er eitthvað sem þú þarft að gera reglulega til að hafa einhverjar vörur til að selja. Einn af styrkleikum Tiny Towers er að leikurinn er sífellt í gangi jafnvel þó þú sért ekki með kveikt á honum. Sem þýðir að þú getur farið inní leikinn oft á dag rétt til að fylla á lagera fyrirtækjanna, sem svo tekur allt frá 1 mínúti og upp í marga klukkutíma.

Tiny Tower er vel hannaður og býður uppá marga klukkutíma af skemmtun. Ef það ætti að setja út á eitthvað er það hversu lítið bætist við í flækjustig leiksins eftir því sem á líður. En ég mæli samt eindregið með þessum leik.

 

  • Stýrikerfi: iOS, Android
  • Verð: ókeypis
  • Einkunn: 7 af 10

 

 

Tiny Tower á Android Market

Tiny Tower á App Store fyrir iOS