Google Music komið úr beta – Myndband

Platan Dauður Hestur fylgir ekki með forritinu

Þá er tónlistarþjónustan Google Music loksins komin úr beta. Sem stendur er þjónustan aðeins í boði í Bandaríkjunum en með smá fikti er að sjálfsögðu hægt að nýta sér þetta hér á landi.

Google Music er svar Google við tónlistarverslunum Apple (iTunes) og Amazon. Hér hefur notandinn möguleikann á því að setja alla sína tónlist (eða allt að 20.000 lög) inn á Google Music og hafa síðan aðgang að henni hvar og hvenær sem er. Einnig er hægt að versla sér tónlist í gegnum þetta, og á Google Music að geta bent þér á tónlist sem hentar þér miðað við það sem þú hefur sett inn.

Það kostar ekkert að setja þessi 20.000 lög inn á þjónustuna, en til samanburðar þarftu að greiða $20 á ári fyrir ótakmarkað pláss fyrir tónlist hjá Amazon og $24.99 fyrir 25.000 lög í iTunes Match.

Ég vil þó benda þeim sem ætla sér að nota Google Music á það að tónlistin þarf að vera sæmilega vel flokkuð áður en henni er hlaðið inn. Þegar nokkrir í kringum mig sem eru ekki jafn OCD hvað varðar tónlistarsafnið sitt og ég voru að prófa þetta var svolítið mikið um hljómsveitina Artist, plötuna Album og að sjálfsögðu slagara eins og Track1, Track5 og Untitled svo eitthvað sé nefnt.

Forritið fyrir Android er það sem þessi færsla snýst að mestu leyti um. Ekkert forrit er komið fyrir iOS eins og er, en iPhone notendur geta farið inn á sérstaka farsímasíðu fyrir Google Music og nýtt sér þjónustuna þannig í gegnum símann sinn. Síðan er í HTML5 og lítur bara nokkuð vel út.

Eins og fyrr segir þá er maður þarna kominn með aðgang að tónlistinni sinni í símanum sínum án þess að þurfa að hafa skrárnar sjálfar á símanum. Maður einfaldlega streymir tónlistinni frá Google Music þjónustunni. Vilji maður ekki streyma tónlistinni er hægt að niðurhala henni á símann sinn inni í forritinu. Þetta getur að sjálfsögðu hentað mjög vel vilji maður t.d. spara 3G notkunina sína.

Hérna er stutt myndband sem sýnir helstu eiginleika Android forritsins.

Eins og fram kemur í myndbandinu er þetta forrit töluvert meira þróað en það var þegar það var ennþá í beta (eins og gefur að skilja). Forritið lítur vel út og finnst mér það koma sér vel að maður geti aðeins átt við hljóminn. Það að geta valið snöggvast og sótt þá tónlist sem maður vill geta haft ‘offline‘ er mjög hentugt. Hægt er að sækja einstaka lag, sækja heilan lagalista, sækja ákveðnar plötur eða allt efni með einhverjum listamanni eða hljómsveit.

Persónulega finnst mér þessi þjónusta algjör snilld. Áður fyrr þurfti ég alltaf að reyna að velja úr mínu tiltölulega stóra safni hvaða tónlist ég gat haft á símanum mínum. Ef maður vildi síðan bæta við þurfti maður oftast að eyða einhverju öðru út í staðinn. Núna er öll mín tónlist þarna til staðar og sparar það mér að þurfa að ganga í gegnum allt ferlið við að setja tónlistina inn á símann, USB snúrur, valkvíðinn og það allt. Þegar tónlist bætist við í safnið mitt á tölvunni er henni sjálfkrafa hlaðið inn á Google Music og þ.a.l. aðgengileg í gegnum forritið á símanum mínum.

Einhverjir örlitlir hnökrar eru á forritinu hér og þar en ekkert það merkilegt að það taki því að tala um það. Þetta er jú líka bara fyrsta útgáfan af forritinu eftir að það kom úr beta og eiga margar uppfærslur eflaust eftir að líta dagsins ljós.

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] Eins og sjá má hef ég valið að láta Tasker setja í gang forritin gogoyoko, 8tracks og Google Music (smellið hér til að sjá umfjöllun Símon.is um Google Music). […]

Comments are closed.