Bættu rafhlöðuendinguna í iPhone 4S

Borið hefur á því að eigendur iPhone 4S síma kvarti undan því að rafhlaðan í símanum endist ekki nægjanlega lengi, þrátt fyrir að vera betra en rafhlaðan í iPhone 4. Á Gizmodo tók Sam Biddle saman nokkur ráð fyrir þá sem vilja lengja endingu hverrar hleðslu í símanum.

Fyrst og fremst ganga tillögur Biddle út á að draga úr virkni staðsetningarþjónustu símans og koma í veg fyrir að síminn sé endalaust að tengjast gegnum GPS til að finna út staðsetninguna.
Hann mælir með því að fólk fari í Settings – Location Services og sýni þar almenna skynsemi og slökkvi á staðsetningarþjónustu fyrir þau forrit sem hafa ekkert með slíkt að gera. Sem dæmi nefnir hann Angry Birds.

Neðst í listanum er flipi sem heitir System Services. Þar undir eru þjónustur sem sjúga orku úr batteríinu og vel er hægt að vera án. Til dæmis má nefna Diagnostics & Usage sem sendir Apple upplýsingar um hvar og hvernig þú notar símann, Setting Time Zone sem fylgist með því hvort þú farir yfir tímabelti og leiðréttir þá klukkuna í símanum ef það gerist. Traffic fylgist með og lætur þig vita ef það er þung umferð framundan. Þetta gagnast ekki á Íslandi.

Sjá nánari samantekt og öll ráðin í grein Gizmodo: How to Save Your iPhone 4S’ Crappy Battery.