Nýr iPhone á morgun! (4. október)
Eins og flestir vita er líklegt að Apple kynni nýja kynslóð iPhone síma á morgun klukkan 17 að íslenskum tíma. Hvað munum við fá að heyra frá Apple á morgun?
Í morgun birtu Macrumors.com mynd frá Vodafone í Þýskalandi þar sem boðið er upp á bæði svarta og hvíta útgáfu af iPhone 4S með 16GB, 32GB og 64GB geymslurými. En er eitthvað að marka lagerstöðu símafyrirtækja á netinu? Vita fyrirtækin bara að það er nýtt tæki á leiðinni og gefa því líklegt nafn á skrá hjá sér?
Margar vefsíður halda því fram að Apple muni selja tvær útgáfur af iPhone. Annars vegar ódýra útgáfu af iPhone sem þeir kalla iPhone 4S sem verði svipaður og iPhone 4 er núna og því lítið sem ekkert nýtt í hönnun símans. Hins vegar verður hin útgáfan líklega kölluð iPhone 5 og mun mögulega skarta 4″ skjá. Gamli síminn er með 3,5″ skjá og þar sem margir Android símar í dag eru með skjástærðir langt yfir 4″ þá er ansi líklegt að Apple muni hafa stærri skjá á nýja símanum. A4 örgjörvanum verður líklega skipt út fyrir nýjan og öflugri A5 örgjörva sem er einnig að finna í iPad 2.
Það skal tekið fram að þetta eru einungis vangaveltur og ekkert víst að neitt af þessu verði að veruleika á morgun. Gefðu álit þitt hér að neðan og segðu okkur frá þínum vangaveltum um iPhone!
Heimldir: Macrumors.com