Kvikmyndaunnendur elska IMDb

Það getur verið að einhverjir íslenskir hellisbúar hafi aldrei heyrt um IMDb eða The Internet Movie Database, og er eins gott fyrir þá hina sömu að hafa aldrei heyrt um kvikmyndir! IMDb.com er án efa besta kvikmyndavefsíða sem þú getur fundið (og er það sagt með fullri virðingu við Kvikmyndir.is sem er meiriháttar fyrir íslenskan markað).

Ef þú elskar að spjalla við vini og kunningja um kvikmyndir og sjónvarpsþætti, hefur þú líkast til lent í því að muna ekki einhverja kvikmynd, leikara, leikkonu eða jafnvel leikstjóra. Svo hefur þú endað kvöldið með þráhyggju yfir því sem þú gast ekki munað. Þremur dögum síðar, þegar minnst á varði, manstu þetta nema þá er ekki nokkur maður nálægt þér til að hlusta.

 

Fyrir mörg okkar þá var veraldarvefurinn algjör guðsgjöf. Fyrir utan að gleyma sér yfir upplýsingasöfnun seint að kvöld, þá var jafnvel hægt að hlaupa að tölvunni ef eitthvað þurfi að muna í miðjum kvikmyndasamræðum. Þetta var ekki hægt þegar maður sat á Nonnabitum með góðan pepperonibát eða á Dubliners með einn Guinness. Þá varð einfaldlega að muna síðar að finna svarið. “Hvað hét bíómyndin með Jean-Claude Van Damme og gaurnum úr Aliens?”

Skömmu eftir að ég eignaðist minn fyrsta iPhone síma (3GS), gaf IMDb út sitt fyrsta app. Þar gat maður fundið ýmsar upplýsingar og var í rauninni allt sem maður þurfti seint að kvöldi yfir bjór með félögunum. IMDb hefur alltaf verið langt á undan svipuðum vefsíðum s.s. RottenTomatos eða Flixter (sem er reyndar það “sama” núna), aðalega vegna þess hversu öruggar upplýsingarnar hafa verið. Leitarvélin þeirra er líka alveg meiriháttar, þar sem þú getur bara rétt mátulega giskað á það sem þú ert að leita að og þú finnur það. Í síðari uppfærslum af IMDb appinu bættust við sýnishorn úr kvikmyndum og sjónvarpsþáttum ásamt ýmiskonar sérþjónustu fyrir þinn reikning. Núna getur þú sett myndir á sérstakan áhorfs-lista ef sýnishornið vekur athygli þína.

Styrkur IMDb er samt enn og mun ávallt vera gagnagrunnurinn þeirra og sjálfstæð gagnrýni notenda. Þú getur með öryggi farið inná vefinn (eða appið) og fundið kvikmynd, litið á stjörnugjöfina og ef hún er hærri en 7,5 þá er kvikmyndin þess virði að horfa á (Twilight fékk 5.4 !).

Nýjasta viðbót IMDb er spurningarleikjar App. Alveg meirihátta fyrir okkur sem elskum kvikmyndir og sérstaklega vel sniðið fyrir klósettferðir eða sem smá keppni yfir bjór með vinum. Appið er frítt og hægt er að kaupa auka spurningar-pakka. Ég óttast að fljótlegt verði farið í gegnum fría efnið, en auðvitað ef fólk er að skemmta sér yfir spurningarkeppninni þá er bara að eyða smá pening í aukapakka.

Ef þið eruð með IMDb spurningarleikinn skiljið þá eftir í athugasemdinni hvað er metið ykkar.

 

IMDb app fyrir Android.