Fjarstýring framtíðarinnar: Snjallsíminn þinn!

Núorðið eru margir með tölvuna sína tengda við sjónvarpið til afspilunar á hvers kyns afþreyingarefni, sumir eru jafnvel með eina tölvu sérstaklega ætlaða sem margmiðlunarþjón (e. Multimedia server) í stofunni. Þetta getur verið mjög þægilegt og það eru margir kostir sem yfirvega þá fídusa sem sjónvarpsflakkarar bjóða uppá. Aðal ókosturinn við þetta fyrirkomulag er að margra mati sá að þurfa að vera með þráðlaust lyklaborð og mús á sófaborðinu eða uppi í sófanum, sem gerir lítið annað en að þvælast fyrir þegar það er ekki í notkun.

Það er til þægileg lausn á þessu „fyrsta heims-vandamáli“ og felst sú lausn í appi sem þú setur upp í snjallsímanum þínum og móttökuforriti (e. client) sem sett er upp á tölvunni sem notuð er. Það eru til allskonar útgáfur af þessari lausn fyrir snjallsíma/tölvur og eitt af þeim er Android-appið Unified Remote sem hægt er að nota til að taka völdin á þeim Windows-vélum sem forritið er sett upp á. Þetta app er því kærkomin viðbót fyrir þá Android-notendur sem vilja sleppa því að vera með lyklaborð og mús uppi í sófanum og nota símann sinn í staðinn.

Hægt er að velja nokkrar mismunandi fjarstýringar, en valmyndin gefur þér möguleika á að velja mismunandi fjarstýringu eftir tilefni og hvaða forriti þú hyggst stjórna í tölvunni hverju sinni. Hér getur þú séð hvaða fjarstýringar eru í boði fyrir Unified Remote, en á þessum lista má sjá forrit eins og VLC, XBMC, Chrome, Windows Media Player, iTunes, Firefox, PowerPoint og mörg fleiri.

Mögulegt er að tengja appið við tölvuna í gegnum þráðlaust staðarnet (e. WiFi) eða í gegnum Blátönn (e. Bluetooth), en mælt er með því að nota heldur þráðlausu nettenginguna. Það er hugsað fyrir ansi mörgu í þessu forriti og það er því alveg óhætt að mæla með þessu fyrir Android notendur sem vilja prófa sig áfram í þessum efnum, enda er alveg gjaldfrjálst að prófa. Hér er hægt að skoða skjáskot af appinu sem og Windows-forritinu til að sjá notandaviðmótið.

Unified Remote appið er gjaldfrjálst á Android Market en hægt er að kaupa fulla útgáfu fyrir 25 sænskar krónur, sem gera u.þ.b. 450 íslenskar krónur miðað við gengi dagsins í dag. Fulla útgáfan opnar á töluvert fleiri tegundir fjarstýringa, ítarlegri möguleika og allar komandi viðbætur, þannig að þessum 450 krónum ætti því að vera nokkuð vel varið. Í heildina er þetta mjög vel heppnað framtak, virkar svo gott sem hnökralaust og möguleikarnir koma manni sífellt á óvart.

Heimasíða: http://www.unifiedremote.com/

 Unified Remote á Market:

Unified Remote