iPhone 4S og Siri kerfið

Er iPhone 4S vonbrigði?

Fyrir þá sem ekki vita var Steve Jobs helsti eigandi Pixar kvikmyndaframleiðandans. Þrátt fyrir að Pixar og Apple séu ólík fyrirtæki þá hefur eitt verið sameiginlegt með þeim; þau hafa stigið fá ef nokkur feilspor seinustu árin. En í sumar varð Cars 2 fyrsta Pixar myndin til að fá lélaga einkunn og ef eitthvað er að marka fréttir af gærdeginum þá er óhætt að segja að Tim Cook sló ekki í gegn.

En hverju var við að búast? Hvað var það sem Apple klúðraði? Er iPhone 4S vonbrigði?

Sama hvað mönnum finnst um Apple þá eru fá fyrirtæki ef nokkur sem standast samanburð við Apple þegar kemur að hönnun og frágangi á vörum. iPhone 4 var engin undantekning á þessu. Gler framhlið og bakhlið vafinn inn í ryðfrítt stál og mikil næmni fyrir minnstu smáatriðum. Vinsælasti síminn í dag, Samsung Galaxy SII stenst þennan samanburð illa. Hann virkar varla massífur eða sérstaklega vel smíðaður (þótt hann sé mikl framför frá Galaxy S) og ég fæ alltaf sting í magann þegar ég tek bakhliðina af. Þessir litlu tappar munu brotna af, það er ekki spurning um hvort heldur hvenær.

 

En það er þannig með góða hönnun að hún er tímalaus og endist og eldist vel. Gott dæmi um það eru aðrar vörur Apple. MacPro hönnunin er frá 2003, Macbook Pro fékk síðast hönnunaryfirhalningu 2008 og iMac hefur aðeins fengið örlitla yfirhalningu á sama tíma. Samt eru allar þessar vörur nútímalegri og vandaðari en flest það sem samkeppnisaðilar Apple hafa upp á að bjóða.

En líftími hönnunar er mis langur eftir því um hvaða vöru er að ræða. Vel hönnuð húsgögn geta auðveldlega staðið fyrir sínu í áratugi og vel hönnuð raftæki á borð við vörur Bang & Olufssen geta staðið vel fyrir sínu þrátt fyrir að vera kominn með aldur til að versla í ríkinu. En hvað með raftæki sem sjáum allt í kringum okkur á hverjum degi og notum jafnvel sjálf ? Getur verið að líftími góðrar hönnunar slíkra tæki sé skemmri? Kannski er eðlilegt að sumir séu einfaldlega komnir með leið á útliti iPhone 4, alveg sama hversu vel heppnað það var. Og í ljósi þess metnaðar sem Apple setur í hönnun þá gera menn einfaldlega hærri kröfur til þeirra en annarra fyrirtækja.

En svo við snúum okkur að upphaflegu spurningunn; er iPhone 4S vonbrigði ? Nei, iPhone 4S er alls ekki vonbrigði. Hann er flott uppfærsla úr iPhone 4. Hver fyrir sig verður að dæma hvort hönnun símans sé þreytt. Sama gildir um þá sem vilja stærri skjá en 3,5“. Apple trúir því ekki að markaðurinn vilji svo stóra síma né að það sé yfir höfuð gagn af stærri skjá en 3,5“. Þannig að ef þú vilt stærri síma (eða minni) þá verður þú að leita annað.

En þótt síminn sjálfur hafi ekki verið vonbrigði þá var gærdagurinn mikil vonbrigði. Þau fólust í því að það hefur tekið Apple rúma 15 mánuði að koma með arftaka iPhone 4 og nú þegar hann lýtur dagsins ljós þá bjóst maður eðlilega við meiru. Það er við Apple að sakast, og engan annan, því þeir hafa á engan hátt staðið sig í því að  stýra væntingum markaðarins. Þessir hlutir skipta fyrirtæki á borð við Samsung litlu máli. Hvort að Samsung Galaxy S+ fái einróma lof skiptir litlu máli því áður en hann heldur upp á 6 mánaða afmælið er fyrirtækið búið að kynna 50 nýja síma. En þegar þú gefur aðeins út nýjan síma á 12-15 mánaða fresti þá skiptir mjög miklu máli hvernig staðið er að því að kynna hann. Ef þessi sími hefði verið kynntur í júní eins og venjan hefur verið með iPhone hefðu fáir sagt mikið. Síminn er rökrétt uppfærsla og jú, menn hefðu kannski vonast eftir meiru en fáir hefðu gert miklar kröfur. En eftir fjögurra mánaða seinkunn þá var pressan á Apple orðin gríðarleg. Það hlaut að vera rökrétt ástæða fyrir þessari seinkunn og með hverjum mánuðinum sem leið jókst pressan á Apple að koma með „eitthvað geðveikt“ og 4S, þrátt fyrir að vera fínn sími, er ekki geðveikur sími.

En þetta kemur iPhone 4S lítið við því þegar allt kemur til alls er iPhone 4S besti sími sem Apple hefur hingað til gert og ef eitthvað er að marka sýnishornin á síðu Apple þá stefnir allt í það að hann verði besti  myndavélasíminn á markaðnum. Örgjörvinn og  skjástýringin er á pari við það besta sem er í boði í dag og Retina skjárinn er ennþá einn besti skjárinn á markaðnum (þó hann teljist vera í minni laginu).

En það er samt erfitt að líta fram hjá því að á þeim tíma sem iPhone 4 kom út hefur Android stýrikerfið þroskast mikið og sama gildir um símtækin sem Android keyrir á. Þegar síminn er borinn saman við það besta í þeirri deild er erfitt að halda því fram að 4S sé besti síminn á markaðnum í dag. Þetta er í raun nýbreyttni því allt frá fyrsta síma Apple hafa símar þeirra alltaf verið flaggskip markaðsins og hafa samkeppnisaðilarnir sjaldnast náð að klóra í bakkann nem rétt fyrir kynningu næsta síma. iPhone 4S er rétt samkepnnishæfur við flaggskip helstu samkeppnisaðila núna , en hvað með næstu mánuði? Þurfum við að bíða fram í janúar 2013 eftir næsta síma? Hvernig mun hann standast samkeppnina allan þann tíma ?

Við getum ekki svarað þessum spurningum núna og við verðum bara að bíða. En eitt er staðreynd, bæði fyrirtæki Steve Jobs slógu feilhögg á þessu ári og þrátt fyrir að feilhöggið muni skapa þeim gríðarlegar tekjur á næstu mánuðum þá er spurning hvort þetta hafi einhverjar afleiðingar þegar fram líða stundir.