Ekki fara á Airwaves án þess að hafa appið!

Mikið hefur verið fjallað um Airwaves appið undanfarið í fjölmiðlum og á netinu, en mér finnst hafa vantað alla almennilega umfjöllun um það. Ég komst því miður ekki á hátíðina í ár en ákvað þó að skoða appið þar sem það eina sem ég hafði heyrt um það er „Geðveikt sniðugt!“

Síminn tók sig til í fyrra og snjallsímavæddi Airwaves með mobile síðu og viðbót fyrir Layar. Síminn steig skrefinu lengra í ár og bjó til virkilega flott app. Vegna þess að það var uppselt á Airwaves hafði ég ákveðið að skrifa ekki um appið. En eftir að hafa hlustað á útvarpið þar sem Andri Freyr sagði að heimasíðan hjá hátíðahöldurum væri rusl í samanburði við þetta ótrúlega þægilega app þurfti ég að skoða þetta.

Appið er vægast sagt flott. Um leið og appið er opnað spilast smá myndband með Síma logoinu og svo dettur maður beint inn á ‘Lineup’. Þar er hægt að sjá alla dagskrána flokkaða eftir dögum og hvaða hljómsveitir eru að spila hvenær. Leitartakkinn er mjög þægilegur þar sem maður getur annað hvort farið í gegnum lista af öllum þeim hljómsveitum sem eru að spila á hátíðinni eða leitað að ákveðinni hljómsveit.

Það fer ekki á milli mála að appið er miðað að ferðamönnum. Það er allt á ensku og ‘To do’ flipinn sýnir manni hvað er hægt að gera í Reykjavík. Þar má finna tillögur að skemmtistöðum, veitingastöðum, búðum og allskonar afþreyingu sem ferðamenn gætu haft gaman að. Þegar smellt er á eitthvað í ‘Locals reccomend’ kemur upp gluggi með upplýsingum um viðkomandi stað og stundum kynningarmyndband.

Map valmöguleikinn er mjög svipaður og mátti sjá í Edinburgh Fringe appinu sem ég fjallaði um fyrir nokkru. Þar getur maður séð staðsetningu sína á korti og einnig er búið að merkja alla staði sem viðburðir eru haldnir á. Einn plús (fyrir ferðamenn) er að maður getur skipt á milli ‘Venue’ og ‘To do’, þannig að allir þeir staðir sem maður finnur í túristaflipanum eru merktir inn á kortið.

‘Hub’ flipinn er að mínu mati frekar skemmtilegur. Þar fær maður upp live Twitter feed þar sem að allir með #airwaves11, #icelandairwaves og fleiri # í þeim dúr eru birt. Þar getur maður einnig streymt hátíðartónlist beint í símtækið. Maður getur svo deilt því ‘lineup’ sem maður er búinn að setja í appið beint á Facebook.

Síðasti flipinn er einfaldlega merktur ‘Síminn’ og þar inni stendur bara ‘Interactive installation @ Reykjavik Art Museum’. Þar var mynd sem virtist vera af listasafninu með play merki yfir, en sama hvað ég djöflaðist á skjánum þá gerðist ekkert. Ég fór því frekar yfir í ‘Webcams’ takkann fyrir ofan. Þar má skoða beina útsendingu úr myndavélum á Café Amsterdam, Faktorý, Gauki á stöng, Hörpunni, NASA og Listasafni Reykjavíkur. Síminn bauð einnig upp á að sjá beina útsendingu af vefmyndavélum í fyrra og auglýstu það grimmt til þess að væri hægt að sjá hvar stysta röðin væri. Við notuðum það aðallega í fyrra til þess að hlæja að vinum okkar sem stóðu úti í rigningunni í röð á meðan við sátum inni og biðum eftir að næsta hljómsveit myndi stíga á svið.

Ef ég ætti að draga þessa umfjöllun saman í eina setningu myndi ég segja að þetta app sé „Geðveikt sniðugt!“. Það er vel hannað, lítur vel út og virkaði mjög vel á meðan ég var að fikta í því. Ég get vel ímyndað mér að það ferðamönnum finnist þægilegt að hafa kort í vasanum og geta fundið sér eitthvað að gera. Appið er einnig mjög þægilegt fyrir okkur heimamenn, til þess að finna út hvaða hljómsveit er að spila hvar og til að vera með sína eigin dagskrá beint í vasanum. Ég vona að fleiri fyrirtæki feti í fótspor Símans með þetta app og geri meira í þessum dúr í náinni framtíð.

Appið er fáanlegt bæði á iOs og Android. Það má nálgast á Android Market og App Store.

 

 

 

 

 

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] app. Must have ef þú ert að fara á hátíðina. Það er augljóst að Síminn hefur tekið appið frá því í fyrra alveg í gegn, bæði útlistlega og efnislega. Þeir hafa mögulega fengið einhverjar hugmyndir frá Werchter […]

Comments are closed.