Cyanogenmod – fyrir alvöru nörda

Allir Android símar sem eru seldir í dag koma með sérsniðinni útgáfu af Android stýrikerfinu. Þetta sérsnið á stýrikerfunum er allt frá því að innihalda nokkur apps frá framleiðanda til þess að viðmótinu hefur verið gjörbreytt eins og er á símum frá Samsung (TouchWiz) og HTC (Sense). Sérsniðin viðmót hafa oftast þann dragbít að vera þung í keyrslu þó nýjustu tvíkjarna símarnir finna kannski lítið fyrir því.

Cyanogenmod er opin (e. open source) útgáfa af Android stýrikerfinu sem hefur verið sniðið fyrir nokkrar tegundir síma þar sem einblínt er á að síminn sé hraðari, innihaldi nýjustu fítusa og sé opnari fyrir stillingum. Fyrir síma sem eru með hæga örgjörva og/eða lítið minni getur þessi hraðaaukningin skipt sköpum þó það sé alls ekki eina ástæðan til að skipta. Einnig býður cyanogenmod upp á valmöguleika til að breyta útliti og virkni meira en gengur og gerist.Þegar þessi grein er skrifuð er nýjasta útgáfan Cyanogenmod 7, sem er byggð á Android 2.3 stýrikerfinu. Útgáfum Cyanogenmod fyrir hvern síma er skipt í þrennt.  Stöðugar útgáfur sem búið er að prófa og hentar vel fyrir daglega notkun. Release candidates sem ættu ekki að innihalda mjög stóra galla, en eru þó enn í prófunum og svo nightly builds, nýjustu útgáfurnar sem forritararnir eru að kokka og gætu tekið símann þinn í bóndabeygju með óþekktum útkomum. Ef prófa á eitthvað annað en stöðugu útgáfuna mælum við með því að googla fyrst hvernig reynsla annara hefur verið.

Hér er listi yfir þá síma sem eru opinberlega studdir en af þessum lista hef ég séð eftirfarandi í umferð á Íslandi:

Google Nexus One
Google Nexus S
HTC Desire
HTC Desire HD
HTC Hero
HTC Incredible S
HTC Wildfire
LG Optimus 2x
Samsung Galaxy S2

Þó síminn þinn sé ekki studdur er ekki öll von úti því það eru líka til óopinberar útgáfur af Cyanogenmod og hafa þá áhugamenn verið að sníða það að fleiri tegundum. Ég fjallaði fyrir nokkru um gamla LG Optimus GT540 símann minn, en á hann hafði ég sett inn útgáfu sem góðhjartaður rússi hafði búið til. Viti menn, síminn varð rúmlega 50% hraðari (Skoraði 769 í stað 500 í Quadrant hraðaprófinu) og fannst það vel í allri notkun.

Stutt um forrit sem fylgja með
ADW Launcher stýrir heimaskjánum og app-drawer. Hann er hraður, mjög stillanlegur og einfaldur í notkun.

Í Theme chooser er hægt að skipta um útlit á mjög auðveldann hátt. hægt er að sækja fleiri útlitspakka á android market.

Apps2SD segir þér hvaða app eru á innra og ytra geymslusvæði(internal/external storage) svo hægt sé að færa þau öll yfir á external. Þetta er einstaklega hentugt fyrir síma með lítið internal storage svo auðveldara sé að hámarka pláss á innra geymslusvæði hans.

Superuser er hjartað í öllum rooted símtækjum. Þetta app getur semsagt gefið öllum öðrum forritum aðgang að su(superuser) linux notandanum í símanum. En þetta gerir þér kleift að keyra forrit líkt og Market enabler og Titanium Backup.

Uppsetning
Til að koma Cyanogenmod inn á símana er nauðsynlegt að hafa rootað þá. En með því fylgir sú pína að ábyrgðin á símanum fyrnist og því á sá kvölina sem á völina.
Við mælum með því að byrja á að lesa vel allar leiðbeingar sem finnast á eftirfarandi slóð http://wiki.cyanogenmod.com/index.php?title=Main_Page. Þarna er smellt á framleiðanda símtækis (e. Samsung) og ef það eru til leiðbeiningar fyrir þitt símtæki þá ætti það að birtast í listanum á þeirri síðu. Svo að lokum er valið „ {Tegund símtækis} Full Update Guide“ (t.d. „ Galaxy-SII Full Update Guide“). Þar eru að finna mjög góðar leiðbeingar sem allir með meðal tölvukunnáttu ættu að ráða við.

Þrír meðlimir Simon.is hafa notast við Cyanogenmod með góðum árangri og þegar það kemur út stöðug útgáfa fyrir Samsung Galaxy S II mun undirritaður eiga erfitt með að standast freistinguna!

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] vilja leyfa. Forrit frá Google mun leyfa þetta strax. Þetta hefur þó verið til staðar í CyanogenMod í nokkra mánuði, en það gaman að sjá að þú þurfir ekki að skipta út stýrikerfi […]

Comments are closed.