Stríðsyfirlýsing Jobs: “Android verður eytt, sama hvað það kostar.”
Það er ekki erfitt að lesa milli línanna að Steve Jobs, fyrrum forstjóri Apple, var ekki kátur með velgengni Android stýrikerfisins. Í nýútkominni ævisögu Jobs sakar hann yfirmenn Google um að hafa stolið ýmsum eiginleikum frá Apple eins og app skjánum og “multitouch” hreyfingunni. Miðað við fréttir síðustu daga um lögsóknir Apple gegn Samsung var augljóst að Jobs ætlaði ekki að láta það viðgangast en fáa grunaði hversu mikið hatur hann hafði í raun á Google og Android.
“Skilaboðin með lögsókn okkar eru: ‘Google, þið stáluð hugmyndinni að iPhone.’ Ég mun eyða síðustu augnablikum ævi minnar og öllum þeim 40 milljörðum bandaríkjadala sem Apple á í bankanum til að leiðrétta þetta. Ég mun eyða Android því þetta er stolin vara. Þeir eru skíthræddir og vita upp á sig sökina. Fyrir utan leitarvélina þá eru Google þjónustur drasl.”
Hvernig er hægt að túlka þetta öðruvísi en stríðsyfirlýsingu? Við greindum frá því nýlega að Google keypti Motorola og vilja margir meina að það hafi verið gert eingöngu til að fá einkaleyfin frá Motorola sem auðveldar Google að verjast lögsóknum – meðal annars frá Apple.
Stríðið á snjallsímamarkaðnum á því vafalaust eftir að harðna á komandi mánuðum miðað við þessi ummæli frá Steve Jobs.
Heimild: Mashable.com