Aftur til fortíðar – Vodafone 246

Vodafone selur helling af símum sem eru framleiddir fyrir þá, einn af þeim nýrri er Vodafone 246. Ekki er hægt að segja að þessi sími sé neitt merkilegur fyrir annað en það að gefa manni allsvakaleg fráhvarseinkenni frá snjallsíma. Höfundur fór úr því að vera með Samsung Galaxy s1 yfir í þennan lánssíma meðan bilanir í þeim fyrrnefnda voru skoðaðar. Breytingin að fara á milli þessara síma var það mikil að erfitt var að gera annað en að skrifa þessa umfjöllun.

Við skulum ekki reyna að þynna þetta út neitt mikið meira því Vodafone 246 er sími sem kemur á óvart á mörgum sviðum.

Innvols

Síminn var kynntur og honum komið í dreifingu apríl 2010 sem var það fyrsta sem kom á óvart, þ.e.a.s. að þessi sími hafi komið út 2010. Síminn hefur glæsilegan 1.44 tommu stóran skjá með TFT, 65k litum. Síminn bíður upp á víbrandi skilaboð og Polyphonic hringitóna. Engin myndavél er á símanum þar sem hún gæti aðeins truflað notandann, auk þess er síminn ekki útbúinn 3G, GPS, Bluetooth, þráðlausu neti, GPRS, USB, innrauðu eða getunni að taka við eða senda póst. Þar sem engin myndavél er á símanum býður hann ekki upp á myndbands upptöku.

Helstu fídusar

Síminn bíður upp á símaskrá og þann eiginleika að geta séð gömul símtöl sem hringt hefur verið eða borist til notanda. Síminn hefur hátalara sem gerir símanum kleyft að leyfa fleiri en tveimur að taka þátt í símtalinu, sem er alltaf skemmtilegt. Síminn bíður upp á FM útvarp með RDS sem segir þér hvað stöðin heitir. Síminn hefur einnig sms eiginlega og dagatal sem aðstoðar þig við að skipuleggja erfitt líf. Heimsklukkan er til staðar í símanum sem gerir þér kleyft að komast að því hvað klukkan er í því landi sem þú ætlar að hringja í sem og reikna út mismun á gjaldeyri. Síminn hefur ekki Java stuðning og getur ekki spilað neina leiki. Símanum getur verið breytt auðveldlega í vasaljós með einum takka, og það er eiginleiki sem ekki margir símar hafa í dag. Síminn hefur enga minniskortarauf sem gerir símann mikið þægilegri í notkun. Einfalt er gott.

Mikilvægustu hlutirnir

Hægt er að hringja úr símanum, fá símtöl, senda sms og fá sms. Símann er hægt að nota sem vasaljós.

Niðurstaða

Vill að það komi fram að mér tókst aldrei að læra að læsa símanum. Ég komst að því þegar ég skilaði honum að starfsmaður í verslun hefði lent í svipuðum vandræðum en hefði loks komist að því eftir 10 mín grúsk í honum. Metnaður minn var ekki jafn mikill. Nokia 5110 gat gert meira en þessi sími getur gert og það eru rúm 13 ár síðan að sá sími kom út. En þessi sími var ekki hannaður til að vera neitt „flaggskip“ Vodafone, heldur til þess eins að geta staðið í grunnsamskiptum. Persónulega gat ég ekki verið lengi með þennan síma í notkun eftir að hafa verið með Android síma í langan tíma og var það heppilegt að ég átti eldri android síma sem ég gat fært mig yfir í.