The Infinite Black – MMO leikur
Í þessum magnaða MMO leik (massively multiplayer online game) stjórnar maður eigin örlögum og ræður hvort maður vill vera göfugur geimkaupmaður, stríðsmaður vetrarbrautarinnar, ósvífinn geimræningi eða yfirstjórnandi samsteypu.
Á jörðinni, sem er upphafspláneta leiksins, fær maður úthlutað geimfar og heldur svo af stað út í óvissuna. Í fyrstu gengur leikurinn út á það að kanna svæðin í kringum jörðina, berjast við geimræningja og geimverur, safna dýrmætum efnum af smástirnum og selja þau á geimstöðvum. Geimsvæðið er mjög stórt en þó takmarkað og skiptist það upp í tvö svæði. Þessi tvö svæði eru gráa og rauða. Í gráa svæðinu eru geimræningjar á minni skipum en á því rauða eru þau stóru og erfiðu. Hægt er að kaupa ný geimför á plánetum sem samsteypur eiga og er hægt að breyta þeim að eigin vild eftir því hvernig þú spilar leikinn.
Þessi leikur er mjög skemmtilegur en það sem kemur á móti er að hann er mjög tímafrekur. Ef ætlunin er að ná langt í honum þarf maður að helst að vera áhugalaus námsmaður eða atvinnulaus. Þannig að ef það á við þig þá mæli ég með honum til þess að drepa tímann.
Það er verðugt að taka fram að grafíkin í leiknum er frekar einföld og byggist hann mjög mikið á samskipti spilara. Það verður gaman að fylgjast með því hvernig þessi leikur kemur út úr beta prófunum og hvort hann muni njóta nokkura vinsælda.