HTC Sensation

Mikilfenglegur HTC sími

HTC Sensation er Android snjallsími sem kom út í maí á þessu ári og er kominn í sölu hérlendis. Þetta er ný kynslóð af HTC Desire HD hér í Evrópu og svipar mikið til þeirra síma sem eru alveg ótrúlega vinsælir í BNA (Thunderbolt, Inspire og Evo). Þessi er þó með þeim þynnri 4,3″ símum sem HTC hefur gefið út (11,3 mm), enda hafa stóru bræður hans verið aðeins þykkari. Nafn símanns er tilvitnun í viðmót HTC sem heitir Sense og er talið vera eina almennilega viðmótið ofan á Android af mörgum.

HTC Sensation

Innvols

Sensation er vel útbúinn snjallsími. Hann er með djúsí 4,3″ SuperLCD skjá, 1,2GHz tvíkjarna örgjörva (Snapdragon), Adreno 220 skjástýringu, 512MB vinnsluminni , 1GB geymsluplássi, 8MP myndavél með Dual-LED flassi og 1520 mAh rafhlöðu.Snjallsíminn er auðvitað með alla helstu tengimöguleika: 3G, þráðlaust net, Bluetooth, A-GPS og FM útvarp.
Álgrind Sensation
Hönnunin er mjög flott og er síminn mjög þægilegur í hendi. Síminn er ótrúlega vel byggður (eins og allir HTC símarnir) og er með sérstaka álgrind (Aluminum Unibody) sem umlykur allar hliðar og horn símans.Eina sem stakk mig í augun er að bakið er þrílita, sem er alltaf ljótt. Skjárinn sjálfur er einnig flottur og rísa kantarnir á honum aðeins upp þar sem hann mætir álgrindinni. Skjárinn stenst samt illa samanburð við OLED skjái frá Samsung (Galaxy S2) og eru litirnir ekki nógu sterkir. Einnig fannst okkur hvít slikja vera yfir skjánum (lélegt contrast?) þegar hann lá við hliðina á Galaxy S2. Undir skjánum eru fjórir snertihnappar: heim, valmynd, til baka og leita takkarnir (frá vinstri til hægri). Það er nokkuð slappt að hafa ekki einn venjulegan takka fyrir að fara á heimaskjáinn og kveikja á skjánum, eins og er á iPhone, Galaxy og Xperia snjallsímunum. Sá takki er ofan á símanum hægra megin og er frekar óþægilegt að nota, sérstaklega þar sem síminn er mjög stór. Ofan á það á til baka hnappurinn alltaf að vera yst (ekki inn í miðri hnapparöðinni). Þetta eru samt allt litlir hlutir sem er mjög auðvelt að venjast hratt.

Helstu fídusar

Sensation er mjög hraður og öflugur sími. Hann býður upp á alla kosti þess að vera með Android 2.3, auk þess að bjóða upp á sérstakt viðmót frá HTC sem heitir Sense (3.0). Viðmótið er ótrúlega fallegt og er búið að setja ýmsa hluti valmyndar í þrívídd (ekki alvöru þrívídd samt). Skjárinn sem kemur upp þegar þú aflæsir er mjög þægilegur og býður þér upp á að aflæsa beint inn í fjögur mismunandi forrit (sem er stillanlegt). Þ.e. þú getur aflæst skjánum með því að draga eitt táknið inn í hringinn neðst á skjánum.

6 aflæsingarskjáir í boði

Hér má sjá sýnishorn af viðmótinu http://www.youtube.com/watch?v=COi4S1yoyO4
Að mínu mati er þetta eina almennilega sérhæfða viðmótið sem kemur á Android. HTC lætur fylgja með tölvupóstsforrit sem heitir Mail og er það næstbesta sem hef notað af tölvupóst forritum (besta myndi vera WP7 Outlook). Það er mjög góð yfirsýn í pósthólfinu og auðvelt er að flagga pósta. Með HTC Sense fylgir svo HTC Hub og HTC Likes. Hub appið gefur þér aðgang að litlum aukahlutum eins og fleiri bakgrunnum, þemum, forritum og fleira frá HTC. HTC Likes sýnir hvað aðrir HTC Sense notendur eru að fíla af öppum og gerir það auðvelt fyrir þig að ná í þau beint af Market.
Síminn talar ekki íslensku, kemur ekki með orðabók né íslenskri valmynd. Margir meðlimir hrista hausinn þegar ég kvarta yfir þessu, en eftir að hafa notað Xperia og LG síma sem báðir tala íslensku þá er ég orðinn alveg sannfærður um gildi þess. Með orðabók sem giskar á rétt orð fyrir mig breytir næ ég að skrifa tölvupóst miklu hraðar. Ég setti þó inn Icelandic orðabókina frá SverrirF, en hún er bara ekki nógu góð. Hún breytir t.d. aldrei stöku a í á, eða stöku i í í. Ég væri til í að sjá HTC bjóða upp á íslenskt viðmót og orðabók sem fyrst.

Hljóð og mynd

Myndavélin (8MP) er nokkuð góð með sterku flassi (Dual LED), sem geta þó átt til að vera aðeins yfirlýstar. Ég náði samt skemmtilegum myndum á símann og eru gæðin mjög góð. Viðmót myndavélar er mjög þægilegt. Skjárinn er Super LCD skjár 4,3″ skjár með 540 x 960 upplausn sem er hærra en á flestum snjallsímum (nema á iPhone4). Ekki það að ég sjái einhvern mun samt.. en tölur trylla! Ég tók eftir því að rafhlaðan hvarf í burt ef ég maxaði birtustig skjásins, en það er ekkert vandamál að minnka birtuna þangað til hann lendir í sól.
Hátalarinn var ekki alveg nógu góður og það heyrist lítið í honum, en samt nógu vel. Hann er einmitt á bakinu, eins og á öllum öðrum snertiskjássímum. Hlustið er einnig með smá braki þegar símtal er stillt á hæsta stig, en það er auðvelt að laga það (lækka). Furðuleg vandamál á svona annars vegar flottum síma.

Mikilvægustu hlutirnir

Vafrinn símanum er til fyrirmyndar og þar hæst á baugi er zoomfídusinn. Það er mjög þægilegt að fara inn og út úr texta, sem aðlagast strax að stærð gluggans. Ef zoomað er alveg út þá sér maður alla opna glugga eða getur opnað nýja. Það fylgir þægilegt Bookmark Widget sem fyllir út í einn skjá og opnar vistuð bókamerki. Hann er hraður og nær 211 stigum í HTML5 prófinu hjá HTML5test.
Rafhlaðan er af hefðbundinni stærð fyrir dýra snjallsíma (1520 mAh). Hún er að endast út daginn og aðeins betur en það (sem er venjulegt fyrir mína notkun) og greinilegt er að síminn er vel þróaður.
Viðmótið er mjög þægilegt og stýrikerfið nýlegt og stútfullt af fídusum með aðgengi að fullt af öppum og leikjum. HTC býður líka upp á Smart Dial sem án efa þægilegasta símaskrá sem ég mun sjá (leitar að nöfnum, símanúmerum, áfram og afturábak þegar stimplað er inn af talnaborði). Ég sakna samt uppflettingu úr fyrirtækjaskrá

Niðurstaða

Rennum snögglega yfir kosti og galla símans.

Kostir

  • Stór og góður skjár
  • Tvíkjarna örgjörvi
  • Þægilegt viðmót
  • Frábær tölvupóstur
  • HTC gæða hönnun
  • Smart Dial

Gallar

  • Frekar dýr
  • Skjárinn stenst illa samanburð við OLED

Þetta er frábær snjallsími og sannarlega flaggskip HTC, en hann er frekar dýr. Síminn er seldur á 140 þúsund hjá Hátækni. Ef ykkur langar í annan HTC síma þá get ég mælt með HTC Desire S (3,7″ skjár, einskjarna) og hef ykkur langar í svipað öflugan síma þá mæli ég með Samsung Galaxy S2 (sem er 30 þúsund krónum ódýrari).

Ef þessi sími væri á 110 þúsund þá myndi ég gefa honum 8/10, en hann dettur niður í 7/10.

E.s.: Við þökkum Hátækni kærlega fyrir að lána okkur prufueintak :)