Láttu Rebecca Black minna þig á hvenær það er föstudagur!

Örvæntið ei lengur lesendur góðir, ég hef fundið mikilvægasta app allra tíma (Fyrir utan AsdisRan auðvitað)! Ég er með lausnina á öllum ykkar vandamálum. Hver kannast ekki við það að hrökkva upp af værum svefni og átta sig á því til sér til mikillar skelfingar að maður hafi gleymt föstudegi? Já! Enginn þarf lengur að missa af einum mikilvægasta degi vikunnar, því ég kynni til sögunnar föstudags app vikunnar: It’s Friday! 

Mig langar að deila með ykkur smá reynslusögu. Nonni litli var vinsælasti strákurinn í skólanum, allt þar til hann uppgötvaði sér til mikillar skelfingar að hann þjáðist af Paraskevilethe. Eins mikið og grey Nonni reyndi, þá gleymdi hann alltaf að það væri föstudagur og missti þar af leiðandi af öllum bestu partýunum. Hann reyndi öll trixin í bókinni: dagatöl, erdetfredag.dk, lesa dagblöð og kaupa alltaf mjólk sem rann út á föstudögum. En allt kom fyrir ekki og greyið Nonni varð útundan. Hann endaði í þunglyndi og sukki og er í dag betur þekktur sem Lalli Johns.

Nonni er ekki jafn heppinn og við, því að við lesendur góðir höfum lausnina! Appið It’s Friday er afar einfalt í notkun. Það eina sem þarf að gera er að opna appið, velja þann tíma sem maður vill að appið minni mann á að það sé föstudagur, og lifa lífinu. Þegar sú örlagastund rennur upp sprettur fram á símann undurfagurt lag sem lætur mann umsvifalaust vita að dagur daganna sé runninn upp!

Já, við erum að tala um að lagið Friday með Rebecca Black birtist sjálfkrafa á skjá símans í allri sinni dýrð og spilar fagra tóna uns hlustandinn hefur upplifað vitrun sína og slekkur á laginu. Aldrei aftur þarft þú, lesandi góður, að missa af einu einasta föstudagspartý!

Ég hvet alla til þess að ná umsvifalaust í þetta app, ég hef nú þegar sent stjórnlagaþinginu og krafist þess að ákvæði um notkun þessa apps verði umsvifalaust bætt inn í stjórnarskrána!

It's Friday! á Android Market