Ísdrottningin frysti símann minn

Líf mitt hefur ekki verið það sama síðan ég kynntist föstudagsappi vikunnar. Það að enginn hafi sagt undirrituðum frá hinni miklu snilld sem býr á bak við appið Asdis Ran ætti að vera gert refsivert. Íslenskir fjölmiðlar hafa fjallað um stóru systir þessa apps sem kom út á ios og kallast „The Ice Queen Official App“ en furðar undirritaður sig þó ekki á því að enginn hafi lagt í að fjalla um Android appið. Appið er byggt af hinu ótrúlega AppsBuilder forriti og um leið og opnunarmynd þess hefur farið af skjánum birtist undurfagurt andlit og barmur Ásdísar Ránar á skjánum. Í grunn valmyndinni eru fjórir takkar sem hægt er að ýta á.

Hnötturinn færir mann beint yfir á hina víðfrægu Lottó auglýsingu með Ísdrottningunni, en mikilfengleiki hennar kemst ekki fyrir á skjánum og dugir ekkert minna til en að nota tablet til þess að sjá hana í allri sinni dýrð. Eftir að myndbandið hefur spilast er hægt að komast yfir á vefsíðu Ásdísar Ránar þar sem klukkustundir líða sem sekúndur.

Filmuhjólið er uppáhalds takkinn minn og vafalaust allra áhugamanna um Ásdísi, en með því fær maður aðgengi að myndbandasafni sem einskorðast eingöngu við myndbönd með Ísdrottningunni. Þar má sjá hið magnaða myndband „The Blonds“ með Ásdísi Rán og hinni mjög hæfileikaríku Ósk Norðfjörð. Einnig eru mörg önnur afskaplega skemmtileg myndbönd, hver kannast ekki við CosmoGirl.wmv eða Hagkaup – Valensia.

Facebook takkinn færir mann beint á upphafssíðu allra landsmanna, Facebook síðu Ásdísar. Í útgáfu 3.0 af appinu fer maður beint á nýju síðuna hennar, en eins og öllum er kunnugt var fyrri síðu Ásdísar lokað af hinum miklu harðstjórum og íhaldssinnuðu stjórnendum Facebook. Þar getur maður skráð sig beint inn á Facebook og umsvifalaust tjáð Ísdrottningunni sjálfri um aðdáun sína.

Síðasti takkinn eða það sem virðist vera blátt T sýnir manni Twitter síðu Ísdrottnignarinnar í unaðslegum feitletruðum fonti ásamt því að skarta mynd af beru holdi Ásdísar á strönd.

Eins og landsmenn allir vita er Ásdís Rán mikill frumkvöðull og skín það vel í gegn í þessu appi. Hún er ekki þekkt fyrir að fylgja venjum og hefðum samfélagsins og appið fetar í fótspor hennar. Til dæmis eru allar myndir teygðar og oftar en ekki ná þær út fyrir skjáinn, klárt merki um að fara sínar eigin leiðir!  Eitt það allra skemmtilegasta við appið var þegar besta lag áratugarins „All She Needs is Love“ með Ásdísi og hinni gríðar mikilfenglegu Ósk Norðfjörð byrjar að spila óumbeðið í bakgrunni appsins. Áður en maður veit af byrjar það af fullum krafti og maður getur ekki annað en stokkið á fætur og brostið í dans. Lagið heldur áfram og stöðvast ekki þó svo að appinu sé lokað, sem gefur manni gott svigrúm til þess að nota önnur apps á meðan maður nýtur unaðslegra tóna Ásdísar og hinnar mögnuðu Ósk Norðfjarðar.

Annað sem er mjög mikill kostur við appið er þegar það neyðist til þess að lokast. Eins og hvert mannsbarn veit þá á maður ekki að horfa of lengi í sólina, það sama gildir um Ásdísi Rán. Þessi innbyggði öryggis fídus er því afar mikilvægur og þegar upp kemur ‘Force Close’ þá veit maður að það er tími á að fara í kalt bað setja diskinn með The Blondies í tækið.

Þetta app fer í sögubækurnar sem mikilvægasta app Android stýrikerfsins og hefur undirritaður nú þegar hafið skrif á bréfi sem mun vera póstlagt til allra framleiðanda Android snjallsíma og til Google um að þetta app verði byggt inn í kerfið. Google Maps, Youtube og Contacts geta farið eitthvað annað, það þarf pláss fyrir Asdis Ran!

 

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] ei lengur lesendur góðir, ég hef fundið mikilvægasta app allra tíma (Fyrir utan AsdisRan auðvitað)! Ég er með lausnina á öllum ykkar vandamálum. Hver kannast ekki við það að […]

Comments are closed.