Hvað í fjandanum á ég að hafa í matinn? Láttu símann ákveða!

Hver kannast ekki við þá aldagömlu spurningu um hvað skuli hafa í kvöldmat? Ég veit fyrir mitt leyti að ég er orðinn þreyttur á því að elda alltaf það sama og ákvað því að kíkja hvort það væri ekki til eitthvað gott app fyrir símann sem gæti hjálpað mér með þetta vandamál. Ég rambaði þá á Allrecipes.com Dinner Spinner Pro.

Dinner Spinner virkar þannig að það eru 3 flokkar, innan þeirra eru valmöguleikar sem maður velur á milli.
Í Dish flokkinum velur maður hvernig tegund af mat maður hefur í huga, þar eru 10 valmöguleikar: Forréttur, brauð, morgunmatur, smákökur, eftirréttur, drykkur, aðalréttur, salat, meðlæti og súpa/kássa.
Næsti flokkur er svo Ingredients, þar velur maður megin-innihald réttarins og eru 13 valmöguleikar: Nautakjöt, ostur, kjúklingur, súkkulaði, fiskur, ávextir, korn, lambakjöt, belgjurtir og baunir, pasta, svínakjöt, skelfiskur og grænmeti.
Þriðji og síðasti flokkurinn er Ready In og velur maður þar hversu langan tíma rétturinn má taka, þar eru 5 flokkar: Hvað sem er, 20 mínútur eða minna, 45 mínútur eða minna, yfir klukkutími eða hægeldað.

Neðst er svo hægt að velja Spin categories og fær maður þá valmöguleika af handahófi.

Þegar búið er að velja þá flokka sem maður vill nota fer maður í View Matches og fær þá upp allar þær uppskriftir sem passa við flokkana. Maður getur raðað niðurstöðunum eftir mikilvægi, einkunn, stafrófsröð eða vinsældum. Þegar búið er að finna þá uppskrift sem maður vill kíkja á þarf einfaldlega að opna hana og skoða í gegn. Þar má sjá hversu marga uppskriftin dugir fyrir, hvað maður þarf í uppskriftina og síðast en ekki síst hvernig á að búa til matinn. Á sumum uppskriftum er hægt að sjá næringarinnihald og umsagnir.

Eitt það allra sniðugasta við þetta app er það að maður getur vistað uppskriftirnar í svokölluðu Recipe box, þar sem maður getur skoðað þær seinna. Einnig er auðveldlega hægt að deila öllum uppskriftunum á Facebook eða Twitter beint úr appinu. Annar mjög sniðugur fídus er innkaupalistinn. Hann virkar þannig að maður velur þá uppskrift sem skal gera og bætir því á innkaupalistann. Þegar farið er að versla getur maður svo opnað appið og séð allt sem þarf í þær uppskriftir sem eru á innkaupalistanum.

Mér finnst þetta app algjör snilld, það eru ógrynni af mismunandi uppskriftum og maður þarf ekki endilega að fara í gegnum Spinner, heldur er einnig hægt að fara í leitina og finna sjálfur ef maður hefur eitthvað sérstakt í huga. Eini gallinn er sá að þetta er bandarískt app, þannig að allar mælieiningar eru bandarískar, en það er þó mjög lítil hindrun.

Ég mæli hiklaust með því að þá sem vantar hugmyndir og eru sælkerar kíki á þetta app, ég veit allavega hvað ég ætla að hafa í matinn í kvöld!

Appið má finna bæði á iOs og Android og kostar einungis $2.99. Það er einnig til ókeypis útgáfa af appinu, í því eru auglýsingar og örlítið færri möguleikar, en allt það góða er einnig til í því!