Hvað er að frétta af iPhone 5 ?

Í dag eru rúmir fjórtán mánuðir síðan Apple kynnti iPhone 4 sem hefur selst meira en nokkur snjallsími á markaðnum. Í raun hefur lítið dregið úr sölunni og erfitt er að halda því fram að Apple þurfi að koma með nýjan síma.  Allt bendir hinsvegar til þess að Apple muni kynna nýjan iPhone (eða tvo, meira um það á eftir) innan nokkurra vikna. Ég segi „bendir“ því í raun veit enginn neitt um áform Apple. Fyrirtækið hefur ekkert gefið upp um sín áform og gerir það raunar aldrei um væntanlegar vörur. Apple gengur lengra en nokkur annar í tæknigeiranum í því að halda óútkomnum vörum leyndum alveg þar til þær eru formlega kynntar.

Síðustu 3 ár hefur myndast ákveðin hefð í vörukynningum Apple. Spjaldtölvur snemma á vorin, símar í júní og iPod-ar í september. Í ár hefur þetta riðlast til. Enginn sími var augljóslega kynntur í júní og nú er september kominn og ekkert bólar á nýjum iPod-um.

Samkvæmt helstu orðrómum mun Apple halda viðburð snemma í október. Eitt sem rennir stoðum undir þann orðróm er að talið er að iOS 5 fái gold stöðu í þessari viku og er þá tilbúið til notkunar í nýjum vörum.

En hvað mun Apple kynna? Hverju eigum við von á? Við skulum skoða hvaða möguleika Apple hefur í stöðunni.

 

Einn sími eða tveir

Sama hvað manni finnst um iPhone þá er eitt sem er augljóst; hann er dýr, mjög dýr. Í aukinn samkeppni við Android hefur iPhone hinsvegar staðið sig vel þegar kemur að dýrustu símunum en Apple hefur engin svör við símum á borð við LG Optimus One, Galaxy Ace eða öðrum ódýrum snjallsímum. Fyrirtækið er meðvitað um þetta og í umræðum um síðasta ársfjórðungsuppgjör gaf Tim Cook það sterklega í skyn að Apple hefði mikinn áhuga á því auka vöruúrval sitt til þess að eiga meiri möguleika í Evrópu og Asíu þar sem meiri hefð er fyrir því að neytendur kaupi síma í stað þess að kaupa niðurgreidda síma gegn bindisamningum.

Reyndar hefur Apple selt 2 síma hverju sinni síðan 2008. Eldra módelið hefur verið selt samhliða nýjum síma. Þetta módel hefur hinsvegar lítið virkað á þeim mörkuðum þar sem símar eru ekki seldir í gegnum bindandi samning. Fáir vilja kaupa síðast árs módel fyrir örlítið minni pening. Ég tel því líklegast að Apple muni kynna tvo nýja síma í stað þess að selja iPhone 4 áfram sem ódýrari útgáfuna. Samkeppnin á snjallsímamarkaðnum er miklu meiri en í fyrra og iPhone 4 er þar að auki frekar dýr í framleiðslu og ætti Apple að geta náð niður kostnaði umtalsvert með nýrri hönnun. Ég segi tvo nýja síma því ég tel ólíklegt að Apple muni gera það sama og þeir gerðu með 3Gs, kynna uppfærðar útgáfu af iPhone 4, einhverskonar 4s með betri örgjafa, minni og myndavél en í sömu skel og iPhone 4.

Samkeppnin á snjallsímamarkaðnum er allt önnur og meir nú en 2009 þegar 3Gs var kynntur. Þá voru fyrstu Android símarnir að koma á markað og lítil sem engin samkeppni. Nú er samkeppnisumhverfið allt annað. Nýir og uppfærðir Android símar koma nánast mánaðarlega. Samsung galaxy SII er nokkra vikna gamall en nú þegar er búið að kynna nokkra 4.5“ síma og fréttir af því að Motorola Samsung séu að hanna nýjan Nexus síma með 4.7“ skjá og öðru góðgæti. iPhone 4s myndi standast þá samkeppni frekar illa. Það getur vel verið að 4.3“ og 4.7“ skjáir séu of stórir fyrir flesta en 3.5“ er of lítið. Þar að auki væri mismunandi skjástærð góð aðgreining á milli tveggja mismunandi dýra síma.

 

Hvað með litla Ísland ?

Þrátt fyrir að mörg þúsund iPhone-ar séu í notkun á Íslandi þá er síminn opinberlega ekki seldur á íslandi. Það þýðir það að enginn endursöluaðili er að kaupa símana beint frá Apple og það hefur gert það að verkum að símarnir eru mun dýrari en þeir gætu verið. Gott dæmi um þetta er iPad og iPad 2. Epli fór krókaleiðir við kaup á iPad og ódýrasta útgáfan var seld á 110.000 kr. iPad 2 er hinsvegar kominn í sölu á íslandi með blessun Apple. Epli kaupir spjaldtölvurnar beint frá Apple og þegar iPad 2 kom fyrst í sölu kostaði ódýrasta útgáfan 75.000 kr. Hún hefur síðan hækkað í 85.000 kr. En það er engu að síður talsverð lækkun frá fyrri útgáfu. Ef nýju símarnir koma opinberlega í sölu á íslandi þá má vænta (og vona) að við sjáum umtalsverða lækkun frá iPhone 4. Þetta breytir talsverðu á markaðnum því hingað til hefur iPhone verið verðlagður út  fyrir kaupgetu flestra íslendinga og mikill fjöldi símanna sem eru í umferð eru símar sem keyptir eru erlendis.

 

Ok, við fáum nýjan iPhone – en hvað meira?

það er ekki bara iPhone sem er kominn á síðasta söludag. Ennþá hafa ekki verið kynntir nýir iPodar, ár er síðan endurhannað Apple TV var kynnt og MacBook Pro go Mac Pro eru komnar á tíma. Við gætum því fengið risa kynningu eða röð kynninga á næstu vikum. Eitt sem er öruggt, þetta er góður tími fyrir okkur tækninördana. Við á Símon munum að sjálfsögðu fylgjast náið með á næstu dögum og vikum og færa ykkur fréttir af þessum málum. 

2 replies

Trackbacks & Pingbacks

  1. […]  að næsti iPhone frá Apple muni skarta stærri skjá en fyrri útgáfur. Við hjá Simon.is spáðum því síðasta haust en skutum þar talsvert yfir markið.  Þegar fyrsti iPhone síminn var settur á markað árið […]

  2. […] fjallaði nýlega um iPhone 5 orðróminn og miðað við lesturinn á greininni er ljóst að Íslendingar eru spenntir fyrir nýjungunum […]

Comments are closed.