Auktu rafhlöðuendingu snjallsímans
Ending rafhlaða í snjallsímum er einn helsti veikleiki þeirra. Þegar maður er byrjaður að nýta sér mikið af þeim forritum sem gera lífið auðveldara og skemmtilegra getur reynst erfitt að fá rafhlöðuna til að endast daginn. Minn sími dugar vinnudaginn en ef ég ætla út úr húsi eftir vinnu verð ég að hlaða símann í einhverja stund áður og reyna eftir fremsta megni að spara rafhlöðuna. Þegar ég er á annað borð komin með skemmtilegan snjallsíma vil ég ekki þurfa að spara rafhlöðuna. Ég vil geta nýtt mér GPS leiðsögn, hlaupaforrit, tónlistarstreymi og önnur rafmagnsfrek forrit eftir hentugleika.
PowerSkin býður upp á lausn við þessu, sílikon hlífðarhulstur með innbyggðri hleðslu. Inni í hulstrinu er micro USB tengi sem tengir PowerSkin hlustrið við símann. Utan á hulstrinu er síðan micro USB rauf sem gerir þér kleyft að hlaða bæði símann og hulstrið í einu.
Helsti kostur PowerSkin er að það er ekki bara aukarafhlaða fyrir símann heldur er það þráðlaust hleðslutæki. Það tekur tæpa tvo tíma að færa hleðsluna af PowerSkin hulstrinu yfir á símann, eftir það er óþarfi að hafa hulstrið á. Fullhlaðið hulstur gefur um 70% hleðslu á rafmagnslausan síma.
Öll virkni hulstursins stuðlar að því að rafhlaða símans lifi sem lengst. Þegar síminn og hulstrið er hlaðið saman fer hleðslan fyrst á símann og því næst á hulstrið. Þegar síminn er notaður í hulstrinu fer hleðslan fyrst af hulstrinu áður en síminn missir hleðslu.
Helsti ókostur PowerSkin er hins vegar stærð hulstursins. Ég prófaði hulstrið á Samsung Galaxy S sem er nú þegar fremur stór sími (4“ skjár) og hann minnkaði alls ekki við PowerSkin hulstrið. Þegar það er komið á símann er hann tvöfalt þykkari og tæpur cm hefur bæst við bæði lengd og breidd. Það truflaði mig þó lítið þar sem það tekur ekki nema tæpa tvo tíma að færa hleðsluna yfir á símann.
Á heildina litið var ég mjög ánægð með virkni hulstursins og finnst það ómissandi hluti af töskunni minni þá daga sem mikið er að gera.
Í dag eru til PowerSkin fyrir iPhone 4 og nokkrar gerðir HTC, BlackBerry, Motorola og Samsung.