Nýr ódýr iPhone á leiðinni á markað?
Heimildir herma að framleiðsla sé hafin í Asíu á ódýrari útgáfu af iPhone 4 en hingað til hefur þekkst. Síminn mun vera með 8 GB minni, en ekki 16 eða 32 GB eins og er núna. Heimildirnar segja að minnið sé framleitt í Kóreu án þess að vilja nefna nein nöfn, en vitað er að Samsung er með verksmiðju í S-Kóreu sem framleiðir minni fyrir Apple.
Fullyrða heimildarmennirnir að 8 GB iPhone 4 síminn muni koma í sölu á næstu vikum. Verður því spennandi að sjá hvort rétt reynist, hvort það komi á markað einhverskonar námsmanna snjallsími sem yrði á bilinu ódýr-millidýr snjallsími. Sérfræðingar hafa bent á að Apple gerir í raun ekki tilkall til nema hluta snjallsímamarkaðsins, þar sem fyrirtækið selur einungis síma sem eru í dýrari kantinum. Með því að koma á markaðinn ódýrari síma væri fyrirtækið að stækka til muna markaðinn sem það keppir á.
Sögunni fylgir einnig að iPhone 5 muni koma á markaðinn um mánaðarmótin september október. Síminn mun samkvæmt þessum heimildum verða áþekkur iPhone 4, nema að skjárinn verður stærri, loftnetið betra og að sjálfsögðu 8 megapixla myndavél, sem flestir eru sammála um að muni verða í iPhone 5.
Þetta eru allt meira og minna óstaðfestar heimildir og sumar betri en aðrar. Við getum því ekki lofað ykkur því að neitt af þessu muni standast. Það sem við getum hins vegar lofað ykkur er að á allra næstu dögum og vikum munum við geta sagt ykkur hvað mun gerast hjá Apple í haust. Fáum við tvær gerðir af iPhone, ódýra útgáfu og fimmu? Eða mun bara koma einn sími? Mun hann þá heita iPhone 4s eða iPhone 5? Svona má lengi spyrja. Fylgist með því við munum svara þessum spurningum og fleirum til á næstunni.