Leikur dagsins: Krúttlegt Zombie slátur

Ef það er eitthvað sem er öruggt í þessum heimi þá er það sú staðreynd að stríðið við uppvakningana mun koma, það er bara spurning hvenær. Þess vegna fögnum við á Símon öllum leikjum og forritum sem undirbúa okkur undir það með einhverjum hætti. Call of Mini Zombies er góð viðbót við flóru uppvakningaleikja og þökk sé frekar krúttlegu útliti hentar einkar vel til að þjálfa börnin fyrir stríðið því þeirra er jú framtíðin. Leikurinn er fyrstu persónu skotleikur með afskaplega einfalt fyrirkomulag. Þú leysir einföld og stutt borð sem ganga einfaldlega út á það að drepa eins marga uppvakninga og þú getur á ákveðnum tíma. Leikurinn er einfaldur en furðu ávanabindandi. Hægt er að kaupa uppfærslur á vopn, brynjur og svo framvegis og eins og með marga iOS leiki er stöðugt verið að uppfæra hann með nýjum vopnum, borðum og aukahlutum. Það er auðvelt að hoppa inn í hann í stutta stund þegar smá tími gefst ( hóst, á klósettinu, hóst ). COM Zombies kostar $0.99 í US Appstore og er fáanlegur á iphone/iPod touch og iPad. Mikill kostur er að leikurinn er seldur sem „universal app“ sem þýðir að þú kaupir eina útgáfu af forritinu og það virkar á allar útgáfur iOS tækja. Undirrituðum hefur ekki ennþá tekist að tengjast Íslensku App versluninni þannig að ef einhver lesandi hefur slíkan aðgang þá má hann endilega athuga hvort leikurinn sé til þar, og ef svo er hvað hann kostar.

Einkunn: 7 / 10

Hér fyrir neðan er myndband sem sýnir leikinn í spilun:

 

 

Hér er svo hægt að nálgast leikinn í Apple app store: