Leikur helgarinnar: Angry Birds + Sprengjur?
Hugsaðu þér Angry Birds nema með sprengjum… Já það er eins frábært og það hljómar!
Sætum litlum Mokis var rænt af hinum illa Kimo og þrátt fyrir hugrekki eins sem náði að bjarga bræðrum sínum þá hafa þeir dreifst um allan heim. Þú þarft að ferðast gegnum 90 borð, sex heima og sýna hvað í þér býr, en til að trufla einbeitinguna að þá eru allir Mokiarnir með litlar sætar húfur til að ná fram hámarks sætleika.
Þetta er einn af fjöldamörgum púsl-leikjum sem eru í boði fyrir iPhone og er gríðarlega erfitt að fara í gegnum alla þá flóru til að finna almennilega leiki. iBlast Moki 2 hittir algjörlega naglann á höfuðið þar sem, ólíkt öðrum púsl leikjum sem snúast flestir um að skjóta hlutum í átt að einhverju, að þá krefst Moki 2 mikillar hugsunar og getur leikurinn verið mjög krefjandi á köflum. Maður myndar tengsl við leikinn þar sem maður skiptist á að elska og hata hann. Það er lítið mál að labba í gegnum fyrsta heiminn en síðar meir þá ábyrgist höfundur að ýmsar ljótar tilfinningar munu koma upp á yfirborðið, en eftir nokkra sigra líður manni eins og sigurvegaranum sem maður er.
Leikurinn er mjög fjölbreytilegur og verður aldrei leiðigjarn. Þú vinnur ekki einungis með sprengjur heldur einnig steina, hjól, lím, olíu og fleira álíka til að þess að koma litlu krúttunum heim.
Svo ef að 90 borð eru ekki nóg fyrir þig að þá geturðu búið til þín eigin, spilað borð eftir aðra og myndað þína eigin upplifun á leiknum. Hann kostar $0.99 í App Store og er klárlega hverrar krónu virði með fjóra og hálfa stjörnu.
Þeir sem vilja upplifa fyrri leikinn áður en þeir njóta hins síðari þá er um að gera að kíkja á hann. Einnig þurfa Android notendur ekki að örvænta þar sem hann er væntanlegur í september.
Einkunn: 8.5 / 10