HTC Incredible S – Stendur hann undir nafni ?

HTC Incredible S

Undanfarið hafa flestir HTC símarnir þótt vera mjög svipaðir ásýndar og lítið verið um ferska strauma útlitslega séð. HTC Incredible S sker sig örlítið úr hvað útlitshönnunina varðar, bæði með “gúmmíkenndri” áferðinni og sérkennilega mótaðri bakhlið. Stamt yfirborð símans verður til þess að grip notandans á símtækinu er mjög gott og því ekki auðvelt að missa hann úr hendi líkt og marga aðra snjallsíma, sem sumir hverjir loða svo illa við hendurnar að þeir virðast hreinlega vera Teflon-húðaðir.

Incredible S kom út í febrúar á þessu ári og fór í sölu hérlendis skömmu síðar. Hann er nú seldur hérlendis á verðbilinu frá 109.900 kr. til 129.990 kr. sem setur hann í flokk með dýrari snjallsímum á markaðinum. Út úr búðinni kemur símtækið með uppsettri Froyo-útgáfunni af Android (2.2) en þar sem Gingerbread-útgáfan (2.3.3) er nú tiltæk, þá er lítið mál að uppfæra.


8MP myndavélin tekur afbragðs nærmyndir eins og sjá má (smækkuð mynd)

Ef við snúum okkur að helsta innvolsi og eiginleikum símans þá hefur hann nautsterkan og rispufrían 4″ Gorilla-skjá sem skilar djúpum og náttúrulegum litum í góðri upplausn (480 x 800 pixlar). 8 megapixla myndavélin skilar alveg hreint ágætum myndum í réttum skilyrðum. Tvöfalda LED-flassið á það reyndar til að yfirlýsa myndir sem eru teknar við lág birtuskilyrði, eins og algengt er með LED-flass á símum. Myndbandsupptaka er möguleg í 720p HD gæðum og kemur ágætlega út. Á framhlið símans er svo 1.3MP myndavél fyrir myndsímtöl í gegnum 3G gagnasamband eða Skype. 1 GHz Snapdragon örgjörvinn vinnur eins og grjótmulningsvél og það er varla að finna “lagg” í símanum þar sem hann keyrir HTC Sense viðmótið svo til hnökralaust.

Rafhlöðuendingin kom virkilega á óvart, þrátt fyrir mikið fikt og ítarlegar prófanir entist rafhlaðan í rúmlega tvo sólarhringa á einni hleðslu. Það sem pirrar mann svolítið er að geta ekki notað HTC Sense klukku-widgetið, því að Ísland er einhverra hluta vegna skráð með DST (e. Daylight Saving Time) sem er auðvitað kolrangt þar sem við íslendingar notumst ekki við slíkt. Það kemur þannig út að klukkan á heimaskjánum er alltaf klukkutíma á undan þeirri sem er uppi í gardínunni. Þeir sem eiga nýlegan HTC síma kannast mjög líklega við þetta sérkennilega vandamál. Þetta er þó hægt að leysa með því að notast við annars konar widget, líkt og Sense Analog Clock Dark eða Beautiful Widgets sem nálgast má í Android Market.

Upplifunin á HTC Incredible S er kannski ekki  beinlínis ótrúleg líkt og nafnið kann að gefa í skyn, en hún er engu að síður mjög góð. Símtækið fer vel í hendi og er sterklega byggt, þannig að tilfinningin er ekki eins og að þú haldir á einhverju plastrusli sem gæti brotnað í höndunum á þér. Það hefur einhvernveginn ekki farið mjög mikið fyrir þessum síma en það er töluvert meira í hann spunnið en marga aðra á svipuðu verði.

Nánari upplýsingar um HTC Incredible S:
Heimasíða HTC
GSMArena

Simon.is fílar Incredible S og gefur honum 7,5 í einkunn af 10 mögulegum.

Simon.is á fleiri miðlum