HTC Google Nexus One – Android beint af spena
Innvols
Nexus One er svipaður HTC Desire að mörgu leyti. Aðal munurinn á hönnun þeirra er að Nexusinn er með snertitakka fyrir neðan skjáinn í stað “physical” takka og hann er líka með scroll bolta svipað og Blackberry notendur kannast við. Ytri umgjörð símans er mjög vönduð í samanburði við Samsung Galaxy S sem dæmi. Hann er svipaður á þykkt og blýantur, virkar mjög sterkur og vel byggður þegar hann er handleikinn.
Örgjörvinn í símanum er 1GHz Snapdragon og skjárinn er 3,7″ AMOLED með 480×800 punkta upplausn. Síminn býður upp á alla helstu netstaðla sem má búast við en þó vantar Wifi-N sem er standardinn á flestum nýlegum beinum (routers) í dag. Það kemur þó ekki að sök en hann á það til að detta út af 3G en það er ekkert sem gott restart lagar ekki. Neminn undir snertitökkunum er illa staðsettur og því tekur smá tíma að venjast því að hitta á réttan stað.
Helstu eiginleikar
Þegar síminn kom út keyrði hann á Android 2.1 en í dag er hann á nýjustu útgáfunni af Android 2.3.4 sem er mikill kostur. Það eru ekki margir Android símar sem státa af þessum eiginleika því framleiðendur símtækja þurfa yfirleitt að fikta við Android stýrikerfið frá Google áður en uppfærsla er send á notendur. Á Nexus One kemur það beint frá Google og því er biðin eftir nýjum uppfærslum yfirleitt mjög stutt.
Skjárinn og örgjörvinn eru helstu kostir símans og þó hann sé ekki beint sá nýjasti á markaðnum þá höndlar hann flest verkefni sem fólk býst við að geta leyst á snjallsíma. Hvort sem það eru tölvuleikir, forrit eða eitthvað annað sem krefjast þungrar vinnslu.
Rafhlöðuendingin er ágæt. Við mikla notkun þarf að hlaða símann daglega en eins og á öllum Android símum er hægt að hagræða stillingum þannig að síminn þurfi hleðslu annan hvern dag. Í fyrstu dugði rafhlaðan í mun styttri tíma en eftir að nýjustu uppfærslurnar komu er ekki hægt að kvarta yfir endingunni.
Mesti galli símans er að innra minnið í honum er einungis 512mb og þar af eru 190mb sem hægt er að nota til að geyma forrit og leiki. Sum forrit bjóða ekki upp á uppsetningu á SD kort og því þarf að nota hið takmarkaða innra minni símans sem er ansi fljótt að klárast. Ef síminn er “rootaður” er hægt að komast framhjá þessu og setja hvað forrit sem er inn á SD kortið og henda út óþarfa forritum sem síminn leyfir ekki að henda.
Mikilvægustu hlutirnir
Vafrinn á símanum er fínn þó hann sé stundum lengi að hlaða niður síðum. Sumir kjósa frekar að nota vinsæla Android vafra eins og Opera eða Dolphin en venjulegi Android vafrinn sem kemur með símanum er ágætur ef fólk er ekki mikið að vafra.
Viðmótið frá Google er mjög flott þó að flestir kjósi að hala niður nýjum “launcher” af Android markaðnum og stilla viðmótið eftir eigin þörfum. Snertiskjárinn virkar vel þó að stöku sinnum komi fyrir að hann les ekki rétt úr því sem notandinn segir honum að gera. Það gerist þó afar sjaldan.
Niðurstaða
HTC Google Nexus One var einn af bestu Android símum á markaðnum árið 2010. Í dag er hætt að selja hann en þrátt fyrir það ætti að vera hægt að fá hann notaðan á góðu verði. Við myndum mæla hiklaust með því að fólk sem er að leita sér að góðum Android síma athugi hvort það sé hægt að fá notaðan Nexus One því hann er mjög góður í samanburði við flesta “mid-range” Android síma sem kosta svipað og nýr Nexus One.
Simon.is gefur Nexus One 7,5 af 10 mögulegum í einkunn.