HP hættir framleiðslu á WebOS tækjum
Í gær tilkynnti Hewlett Packard að fyrirtækið mun hætta allri framleiðslu og þróun á snjalltækjum sem nota WebOS stýrikerfi fyrirtækisins. Þetta gera þeir rúmu ári eftir að þeir keypti Palm fyrirtækið og með því WebOS stýrikerfið. Þessi breyting er hluti af mun stærri breytingum því fyrirtækið áformar að selja allt einstaklingsvörusvið fyrirtækisins. Eitt sem vekur athygli að HP tekur sérstaklega fram að spjaldtölvuvæðingin er ein af ástæðum þess að fyrirtækið hefur þurft að horfa upp á minnkandi sölu. Við fluttum fréttir af því í fyrradag að Pré 3 snjallsíminn og sé kominn í sölu í Evrópu en nú er það óvíst. Áætlað er að fyrirtækið hafi látið framleiða um eina milljón af Touchpad spjaldtölvum en aðeins sé búið að selja einn tíunda af því. HP hefur ekkert gefið uppi um það hvað verður um WebOS stýrikerfið. Einn möguleikinn er sá að bjóða farsímaframleiðundum að nota það gegn gjaldi. Annar möguleiki er að selja öðru fyrirtæki stýrikerfið í heild
sinni. Erfitt er að verðmeta stýrikerfið. Palm var selt á 162 milljarða króna en síðan sú sala átti sér stað hafa margir mikilvægir starfsmenn sem unnu að þróun WebOS yfirgefið fyrirtækið. Við þessar breytingar er mikil hætta á því að sá flótti aukist enn frekar og að lítið verði eftir af fólkinu sem bjó WebOS til. Eitt er þó víst að stærstu framleiðendur Android síma eru alvarlega að skoða stöðu sína eftir fréttirnar af kaupum Google á Motorola og því verður gaman að fylgjast með framhaldinu.
Heimildir: The Wall Street Journal , Engadget