Fyrsti þrívíddarsnjallsíminn!
LG Optimus 3D er fyrsti snjallsíminn sem getur tekið upp myndbönd og tekið myndir í þrívídd. Síminn kom í sölu í ágúst á Íslandi og kostar í kringum 110 þúsund. Þetta er Android snjallsími með öllu inniföldu og er mjög svipaður LG Optimus 2X sem var fyrsti snjallsíminn með tvíkjarna örgjörva. Þrívíddinn er ótrúlega skemmtileg og þarf ekki að nota gleraugu til að hún virki. Það þarf hinsvegar að finna rétta sjónarhornið til að finna “sweet spot” þannig að allt poppi upp í þrívídd. Á meðan ég prófaði símann vildu allir í kringum mig sjá og prófa og þá sérstaklega amma mín, sem fannst þetta ótrúlega flottur sími.
Innvols
Þetta er stór og öflugur sími með öllum pakkanum. Hann er með tvíkjarna 1 Ghz örgjörva (ARM Cortex A), sérstaka skjástýringu (PowerVR SGX540), 512 MB vinnsluminni, 8GB geymslupláss (innbyggt), MicroSD rauf, tvær 5MP myndavélar að aftan ásamt flassi og eina 2MP að framan fyrir myndsímtöl. Það þarf tvær myndavélar að aftan til að búa til þrívíddina.
Síminn er með staðlaðan samskiptapakka: þráðlaust net, 3G, Bluetooth 2,1 og GPS. Hann er ágætlega hannaður og þægilegur, með gúmmíáferð á bakinu sem er bæði þægilegt og öruggt grip. Hann er mjög þungur (170 g) og þykkur (12 mm), sem er ekki beint þægilegt. Skjárinn er líka það stór að það er pínu þrekraun að fara frá horninu hægra megin og upp í gagnstætt horn. Ég hef áður verið með svona stóra síma (Sony Ericsson Xperia Arc 4,2″) sem var ekki til vandræða. Síminn fer því ekki vel í vasa, en miðað við gömlu candybar símana þá er þetta reyndar ekki alslæmt. Öll horn á símanum eru ávöl sem er mjög þægilegt. Það eru fjórir snertihnappar undir skjánum: Valmynd, heim, til baka og leita. Mér finnst verra að hafa ekki heim sem rauntakka, eins og á Xperia og Galaxy línunni, en þetta var ekki að trufla mig að neinu ráði. Skjá/slökkvatakkinn er svo að ofan ásamt 3,5 mm jack, en sú staðsetning á takkanum er við það að detta úr tísku þar sem flestir framleiðendur setja hann á hægri hliðina sem er þægilegra. Á þeirri hlið er hinsvegar hækka/lækka takkinn efst og svo neðst 3D takkinn sem fer með þig beint í 3D valmynd LG. Á hinni hliðinni er svo USB rauf og HDMI rauf (MLH) þannig hægt sé að tengja símann við sjónvarp. Verst að ég á ekki LG 3D sjónvarp.
Helstu fídusar
Helsti sölupunktur þessa síma er klárlega þrívíddin, en það má samt ekki gleyma því að þetta er mjög öflugur snjallsími. Þrívíddin er mjög skemmtileg, en það er erfitt að deila þrívíddarefni án þess að eiga þrívíddarsjónvarp eða hafa aðgang að slíku. Það fylgja með nokkrir leikir í þrívídd sem eru mjög flottir og ég fann allavega einn skemmtilegan leik (Nova). Það gæti vel verið að þrívídd verði móðins og allir fari að nýta sér þá tækni. Eitt er allavega víst; flest sjónvörp verða með þrívídd á næstunni.
Hljóð og mynd
Aftan á símanum eru tvö löng op fyrir hátalarann, sem er nokkuð öflugur. En eins og alltaf þá er hann aftan á símanum, sem gerir Youtube gláp frekar leiðinlegt þar sem hljóðið vísar frá þér. Það er hinsvegar hægt að halda þannig á símanum að hljóðið berist betur til þín. Opin eru frekar víð og eiga líklega eftir að safna að sér ló og óhreinindum.
Myndavélirnar tvær aftan á símanum eru 5 MP og taka upp í þrívídd bæði 720p myndbönd og 3 MP myndir. Hægt er að taka 5 MP hefðbundnar myndir og ég tók eftir því að þær þoldu illa birtu. Allar myndir með mikilli birtu enduðu yfirlýstar og með stórum birtublettum sem máðu út allt annað. Myndavélin virtist þola birtuna betur þegar teknar voru þrívíddarmyndir.
Síminn er með 4,3″ LCD skjá sem er mjög stór fyrir snjallsíma, með 480×800 uppplausn. Skjárinn er bjartur með flottum litum og sýnir flotta þrívídd en það er líklega þrívíddin sem gerir símann svona þykkan. Skjárinn er mjög viðbragðsfljótur og tiltölulega kámfrír.
Mikilvægustu hlutirnir
Síminn er með Android 2.2 sem er ekki nýjasta útgáfan, þar sem Android 2.3 kom út fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það er verra, en virkar samt sem áður. Vafrinn er ágætur og svipar til allra annarra Android vafra fyrir utan stikuna neðst með til baka, áfram, gluggar, bæta við glugga og stillingar tökkum, sem hverfur aldrei ólíkt öðrum stikum í Android vöfrum. Borinn saman við aðra vafra þá er hann nógu góður – borinn saman við Android vafra þá er hann slappur. Breytingar LG á viðmótinu, orðabók og uppsetningu eru mjög góðar. Þeir fikta minna en meira útlitinu (sem er kostur) og skaffa íslenska valmynd og orðabók. Orðabókin er með þeirri bestu sem ég hef notað á snjallsíma (mun betri en Sony Ericsson orðabókin). Valmyndin er nokkuð vel þýdd, fyrir utan að orðið “Refresh” er þýtt sem “Endurglæða”. Aflæsingarskjárinn er mjög skemmtilegur og býður upp á að aflæsa beint inn í ákveðin forrit frá tilkynningum um tölvupóst, SMS og símtöl.
Ending rafhlöðu er frekar slöpp. Síminn er fastur á Android 2.2. sem er ekki eins sparsamt á rafmagn og nýjasta útgáfan (2.3), skjárinn er stór og eyðir rafmagni jafnvel þó hann sé að birta svarta liti og hugbúnaður LG virðist ekki bæta ástandið neitt.
Niðurstaða
Þetta er skemmtilegur og fullorðins Android snjallsími, með mjög einstökum fídus; þrívíddarmyndavél. Síminn er fullbúinn snjallsími og getur gert allt það sem aðrir símar gera. Skoðum aðeins kosti og galla símans.
Kostir:
- Þrívíddarmyndavél
- Tvíkjarna örgjörvi
- 4,3″ snertiskjár með björtum litum og þrívídd
- Íslenskt viðmót og orðabók
- Góður aflæsingarskjár.
Gallar:
- Mjög þykkur og þungur
- Stutt ending rafhlöðu
- Android 2.2 (ekki það nýjasta)
- Lélegar myndir (fyrir utan þær í þrívídd).
LG eru fyrstir á markað með þrívíddarsnjallsíma sem flott hjá þeim, en eins og svo oft með vörur sem eru fyrstar sinnar tegundar á markaðinn að þá hefði þessi mátt fá lengri meðgöngu. Þetta er þó fínn snjallsími en þegar hann er borinn saman við aðra síma í sama verðflokki þá hefur hann ekkert umfram félaga sína nema þrívíddina.
Simon.is gefur Optimus 3D 6,0 í einkunn af 10 mögulegum.