Er vinnupóstur í einkasímann málið?

Færð þú vinnupóstinn sendan í símann þinn?

Snjallsímavæðing íslendinga gengur lygilega hratt og fylgifiskur þess er að sífellt fleiri kjósa að fá vinnupóstinn beint í símann. Það sem ekki endilega allir gera sér grein fyrir að þegar símar eru tengdir við Microsoft Exchange þjóna (algengustu gerðir af póstþjónum hjá stærri fyrirtækjum) þá fá fyrirtækin/vinnuveitandinn ákveðin réttindi inn á símann.

Þessi réttindi eru margvísleg en það sem skiptir mestu máli er að þá getur vinnuveitandinn hvenær sem er eytt öllum gögnum útaf símanum (remote wipe). Það er reyndar mismunandi hvernig þetta virkar á milli tegunda síma, á iPhone og Blackberry þurrkast allt út hvort sem það er vinnupóstur eða persónulegar myndir sem teknar hafa verið á símann. Á Android símum fer síminn á verksmiðjustillingar en öll gögn sem eru á minniskortinu haldast ósködduð sem þýðir að ljósmyndir og slíkt ættu að geymast en póstur, forrit og stillingar hverfa.

Það er nú í fáum tilfellum sem slíkar aðgerðir eru notaðar, en það er alveg hægt að setja sig í spor vinnuveitandans að vilja hafa þennan valmöguleika því oft geta verið viðkvæm gögn í vinnupóstum og því gott að geta gripið til þessa ef síminn glatast. Það sem alvarlegra er, að það hafa komið upp dæmi þar sem kerfisstjórar hafi óvart sent þessa skipun út og þar með gert síma algjörlega óvirka – og persónuleg gögn horfið!

Á hinn bóginn hafa líka notendur aðgang að þessum fídus. Ef þú ert í þessari stöðu og lendir í því að glata símanum þínum, þá getur þú skráð þig inn í vefpóstinn, farið í Options – Mobile Devices og valið þar “Wipe All Data from Device…” og andað léttar.

Microsoft Exchange Remote Wipe

Remote wipe valmöguleikinn í vefpósti Microsoft Exchange

Við hjá Simon.is urðum að prófa þetta og um leið og smellt er á takkann þá slökkti Android síminn á sér. Þegar það kviknaði aftur á honum þá var hann komin á verksmiðjustillingar, svínvirkar!

Ef vinnuveitandi skaffar ekki síma, þá þarf að vega og meta hvort taka eigi við vinnupóstinum í einkasímann. Þessi réttindi sem vinnuveitandinn fær er eitthvað sem þarf að taka með í þann reikning. Það er þannig með snjallsímana eins og annan tölvubúnað í dag að það er aldrei hægt að taka öryggisafrit of oft!

 

Heimildir:
http://apple.com
http://technet.microsoft.com