Tidal kveikir á Íslandi

Tónlistarveitan Tidal, sem er í eigu Jay Z, hefur nú opnað á þjónustu sína á Íslandi. Veitan býður upp á 25 milljón lög og 75 þúsund tónlistarmyndbönd í háskerpu. Það sem er sérstakt við Tidal er aðgangur að FLAC tónlist, eða tónlist í mun meiri gæðum en á öðrum veitum (Spotify, Google Music, iTunes radiu, Rdio,…).

Tvær áskriftir eru í boði:

  • €9.99 almenn áskrift
  • €19.99 með aðgengi að tónlist í FLAC gæðum

Hér er stutt kynningarmyndband. Við mælum með að nota góð heyrnatól eða hátalara með því til að hámarka upplifun.

https://vimeo.com/107804043

Tidal er komið með app fyrir iOS og Android snjalltæki. Appið er einfalt og svart og minnir mikið á ónefndan samkeppnisaðila. Það er hinsvegar ekkert forrit til fyrir tölvur, en þar veðjar Tidal á vefspilara sinn (listen.tidal.com). Vefviðmótið er mjög svipað og appið, nema að allt er stærra.

TIDAL_WebPlayer_ArtistPage

Nokkrir í Simon hafa verið að prófa Tidal og við rákum okkur strax á talsverða þurrð hvað varðar íslenskt efni. Það er enginn Bubbi, ekkert Gusgus í boði. Vonandi er það eitthvað sem verður lagað á næstunni, með samningum við íslenskar efnisveitur eins og Senu. Appið er nokkuð nothæft en við söknuðum þó eiginleika sem samkeppnin býður upp á. Til dæmis þá er ekki hægt að fjarstýra öðrum tækjum og þú getur ekki tekið yfir streymi sem er í gangi. Þetta er vonandi eitthvað sem verður einnig bætt úr.

Allir lagalistar eru handsmíðaðir af fagfólki, eða „heimsklassa ritstjórnarteymi“ eins og Tidal orðar það.

Tidal hefur vakið mikla athygli eftir að Jay Z keypti það í mars núna í ár. Jay Z splæsti 56 milljónir í Tidal á sínum tíma, en tónlistarveitan er metin á 250 milljónir dala (35 milljarðar króna) í dag. Í kjölfarið af því var haldinn fjölmiðlafundur sem vakti mikla athygli og er aðeins búið að gera grín að.

Simon fagnar aukinni samkeppni á markaði og býður Tidal velkomið til landsins!