Apple að byrja með eigið áskriftarsjónvarp?

Apple stefnir á að setja á fót eigið áskriftarsjónvarp yfir netið, síðar á árinu, ef marka má nýlegar fréttir í erlendum miðlum. Rætt er um að þetta verði einhvers konar samansafn af dagskrá u.þ.b. 25 stórra bandarískra sjónvarpsstöðva eins og CBS, ESPN, Fox ofl. Á þetta verður svo hægt að horfa yfir netið í tækjum með iOS stýrikerfi, þar á meðal Apple TV.

Þá kemur fram í erlendum miðlum að þjónustan verði formlega kynnt á WWDC ráðstefnu Apple í júní. Einnig hafa erlendir miðlar verið að skjóta á að þjónustan komi til með að kosta $30-$40 á mánuði, sem er nokkuð meira en til dæmis Netflix kostar.

Þessi ákvörðun er talin eiga uppruna sinn í samruna Comcast og Time Warner á síðasta ári, sem var talið verið augljóst svar við áhuga Apple á því að kaupa efni frá þeim tveimur efnisveitum (nei, ekki í boði).

Við fylgjumst með framvindu mála og segjum nánari fréttir þegar þær berast.

Heimild: The Wall Street Journal og USA Today.