Pebble Steel – Umfjöllun

Allt frá því að Apple kynnti iPad árið 2010 þá hefur verið linnulaus umræða um það hvað væri næst. Alvöru snjallsímar komnir í alla vasa. Spjaldtölvur á flest heimili. Hvað geta risafyrirtæki selt okkur næst? Hvað þurfa allir að eiga? Sumir hallast að því að íklæðanleg tæki séu það næsta stóra og hafa ýmis þannig tæki hafa litið dagsins ljós á síðustu árum. Fitbit kom með ýmsar útgáfur af skrefa/púls/svefnmælum. Sama gerði Nike með Fuelband og Up frá Jawbone. Ekkert af þessum tækjum svara þó almennilega spurningunni til hvers? Flest þessara tækja enda ofan í skúffu. Til þess að vera nothæf þurfa þau að gera meira. Fækka skiptunum sem þú þarft að taka upp símann. Það var ekki fyrr en í janúar 2013 sem fyrsta alvöru (sem seldist eitthvað) snjallúrið kom á markað. Það var frá fyrirtækinu Pebble sem hafði fjármagnað úrið með söfnun á Kickstarter. Söfnunin gekk mjög vel og setti fyrirtækið met því þeir söfnuðu rúmum 10 milljón dollurum en höfuð upphaflega óskað eftir 100 þúsund dollurum. Úrið var frekar einfallt. Svarthvítur LCD skjár umvafinn leiðinlega einfaldri og látlausri plastskel. Úrið seldist hinsvegar nokkuð vel og ári seinna kom svo uppfærð útgáfa út: Pebble Steel út. Sú útgáfa er til umfjöllunar hér. Uppfærslan var þó eingöngu á yfirborðinu. Sami skjárinn er nú umvafinn í stál skel. Úrið sem ég prófaði var svart og með svartri stálól.

Back to basic

Áður en ég held áfram þá langar mig að benda á nokkra hluti. Ég prófaði aldrei Pebble plast. Fyrsta snjallúrið sem ég prófaði var Samsung Galaxy Gear og þar á eftir LG G watch. Þegar ég fékk svo Pebble Steel þá var fyrsta upplifunin vonbrigði. Ég fór frá 16 milljón litum og snertiskjá í svarthvítan skjá með lægri upplausn og tökkum. Allt virkaði eldra og verra. Þetta minnti á fyrstu Game Boy tölvuna. Pebble er þó með baklýsingu sem þú virkjar með takka eða með því að hrista úlnliðinn. Ég flakkaði því fram og til baka á milli LG G Watch og Pebble Steel. En eftir nokkrar vikur þá tók ég eftir því að ég greip Pebble oftar og oftar í stað LG úrsins. Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir alla hlutina sem það gerði verr sem snjallúr þá virkaði það margfallt betur sem úr – og þar er snilldin við Pebble fólgin. Þetta er fyrst og fremst úr, hitt er bónus. Í stað þess að þurfa að hlaða úrið daglega eins og með Galaxy Gear og LG G Watch þá endist rafhlaðan í tæpa viku. Eitt af því sem ég lenti stöðugt í með Android Wear úrið var að rafhlaðan var ALLTAF að klárast og þess vegna var ég stöðugt á flakki með hleðslutækið. Heima fyrir, í vinnunni og á ferðalögum. Það gerði það að verkum að ég fann aldrei hleðslutækið þegar ég þurfti næst á því að halda. Þessu var þveröfugt farið með Pebble. Úrið entist í tæpa viku. Ég hlóð það um helgar. Ekkert maus, ekkert vesen.

Annað sem ég tók eftir var að úrið vakti miklu minni athygli. Það tók engin eftir því, þetta var bara úr. Í hvert skipti sem ég kveikti á Android úrinu þá kviknaði á björtum litaskjá, skært og bjart hvítt ljós og augu allra í kringum mig færðust á úlnliðinn: Hvað er þetta eiginlega? Menn geta svo deilt um það hvort þetta sé kostur eða galli.

Það hjálpar líka til að Pebble Steel er ekki það stórt samanborið við önnur snjallúr. Það hjálpar til við að fela það.

Tilkynningar

Hvað varðar snjallúravirknina þá fann ég í raun lítinn mun. Úrið víbrar þegar síminn hringir. Ég saknaði þess að geta ekki svarað í úrinu og talað við úrið Dick tracy style eins og hægt er á Galaxy Gear þótt ég hafi aðeins notað þann möguleika einn en ekki innan um annað fólk af augljósum ástæðum. Tilkynningar virka svipað. Þú styllir í Pebble appinu á símanum hvaða forrit þú vilt fá tilkynningar um. Ég mæli sterklega með því að velja sem fæstar tilkynningar í fyrstu. Það er nefnilega þannig að til þess að það sé gagn af þessum tilkynningum þá þurfa þær að vera það fáar að þú kíkir á þær allar, að þú getir treyst því að þetta séu allar mikilvægar og gagnlegar upplýsingar. Ef síminn víbrar stanslaust með Facebook like-um og og öðru drasli þá hættir maður að nenna að kíkja á úrið. Ég endaði á að fá aðeins tilkynningar um vinnupóst, sms, Facebook skilaboð, Hangout skilaboð og Slack. Til að gera þessar tilkynningar ennþá betri þá bættu Pebble svo við stuðningi við Android Wear tilkynningar í síðustu viku sem gerir ábendingarnar mun gagnlegri.

Annað sem gerir Pebble að betri valkost en Android Wear er magnið af öppum, úrskífum og öðrum gagnlegum viðbótum. Þetta mun þó nokkuð örugglega breytast í apríl þegar Apple úrið kemur út.

DSC04270

Munurinn á því að þurfa og langa

En aftur af spurningunni til hvers þarf maður snjallúr? Það er erfitt að halda því fram að þú þurfir það? Og þá á ég ekki við út frá einhverjum Zen búdda pælinum þurfum við veraldlega hluti? Heldur einfaldlega er þetta það gagnlegt að maður geti ekki lifað án þess? Það hefur ekki verið mín upplifun. Það sést best á því að í raun sakna ég þess mjög lítið þegar ég gleymi að setja það á mig áður en ég hleyp út. Það er einfaldlega ekki það flókið að vippa út símanum þegar þú færð póst eða skilaboð. Hinsvegar voru einstaka skipti þar sem það var óviðeigandi að taka upp símann. Á fundum eða í matarboðum þá gat það verið gagnlegt. Ég held að nálgun Apple sé í raun mjög sniðug: Apple úr mun keppa við Rolex og Tag Heuer í stað snjallúra. Apple Watch verður fyrst og fremst úr fyrir þá sem vilja vera með úr. Hinir munu vera jafn tvístígandi og ég.  Ég er hinsvegar algjörlega ósammála þeirri nálgun Apple og Google að snjallúr þurfi ekki að duga meira en daginn.  Litaskjár og allt það er frábært en viku batterí er betra. Pebble kynnti fyrr í vikunni uppfært úr með litaskjá. Það verður áhugavert að sjá hvað áhrif það hefur á rafhlöðuendingu.  Ég væri frekar til í að sjá þá stækka svarthvíta skjáinn og auka upplausina en halda viku batteríinu. Því miður er það ekki eitthvað sem markaðurinn er að biðja um.

Ef ég á að velja á milli þess að hlaða úrið daglega eða vikulega þá er valið einfalt: Úr sem þú hleður daglega er úr sem þú hættir að nenna að hlaða og ég hef ekki ennþá hætt að nenna að hlaða Pebble.

Pebble Steel fær 4 stjörnur af 5 mögulegum.

 Kostir:

  • Falleg hönnun
  • Lítið og létt
  • Skarpur skjár
  • Viðmótið er þægilegt og virkar vel með tökkum.

Gallar:

  • Skjárinn er of lítill
  • Texti of of smár til að lesa á hlaupum
  • Sérhannað hleðslutæki í stað Micro USB.