Settu mikilvægar heilsufarsupplýsingar í iPhone

Meðal nýjunga í iOS 8 sem Apple kynnti nú í haust er Health appið. Í stuttu máli má segja að appinu er ætlað að vera miðstöð fyrir allar helstu heilsufarstengdar upplýsingar sem notandi símans vill safna. Fer slík gagnasöfnun ýmist fram með öðrum öppum þaðan sem upplýsingar eru fluttar yfir í Health appið eða notandi getur slegið inn slíkar upplýsingar handvirkt. Þetta er eitthvað sem við munum eflaust fjalla um síðar þegar appið verður orðið vinsælla.

Það sem við ætlum hins vegar að fjalla um núna er Medical ID hluti appsins. Okkur er ekki kunnugt um íslenskt hugtak yfir þetta en Medical ID er safn af helstu nauðsynlegu sjúkrauppýsingum sem nauðsynlegar eru í neyðartilvikum. Margir kannast til dæmis við armbönd sem sumir sykursjúkir hafa gengið með til að upplýsa um sykursýkina komi til þess að viðkomandi þurfi neyðaraðstoð.

IMG_0034

Medical ID í Health appinu er einfalt í uppsetningu og getur komið sér vel í neyðartilvikum. Það er nokkuð gott hlutfall Íslendinga með iPhone síma og því hægt að auðvelda og flýta vinnu lögreglu, sjúkra- og slökkviliðs og annarra sem eru fyrstir á vettvang. Fólk þarf einungis að gefa sér nokkrar mínútur til að setja inn þessar helstu upplýsingar eins og um blóðflokk, ofnæmi, lyfjanotkun o.s.frv.

Til að færa inn þessar upplýsingar þarf að velja Medical ID niðrí hægra megin í Health appinu. Því næst velja Create Medical ID og setja inn allar þær helstu upplýsingar sem viðkomandi telur nauðsynlegt að koma á framfæri í neyðartilvikum. Mikilvægt er að hafa í huga að passa að “Show When Locked” sé valið (grænt), til þess að hægt sé að nálgast upplýsingarnar án þess að vita PIN-númer símans.

Í neyð getur utanaðkomandi (t.d. lögreglan) nálgast þessar upplýsingar í símtækinu með því að velja Emergency niðri vinstra megin í Lock screen og svo Medical ID. Hafi maður sett inn einn eða fleiri tengiliði þá er hægt að hringja beint í þá úr valmyndinni.

IMG_0005

Að öðru leyti skýrir þetta sig sjálft. Við vonum bara að sem flestir iPhone notendur gefi sér nokkrar mínútur og setji inn nauðsynlegar upplýsingar og foreldrar setji slíkt inn hjá börnunum sínum. Það er ómögulegt að segja hvenær það getur orðið nauðsynlegt að nálgast þessar upplýsingar.