QuizUp er kominn á Android

QuizUp, spurningaleikurinn frá PlainVanilla sem hefur slegið í gegn á iOS er loksins kominn út á Android! QuizUp hefur verið í lokuðum prófunum um nokkurt skeið og fékk Símon að prófa appið. Fregnir herma að QuizUp sé einnig í lokuðum prófunum á Windows Phone og ætti vonandi að koma út þar í náinni framtíð.

quizup

Fyrir þá sem ekki vita þá er QuizUp rauntíma spurningaleikur þar sem hægt er að keppa við fjölda manns allstaðar að úr heiminum í gríðarlega mörgum flokkum. Flokkarnir eru yfir 400 talsins og eru yfir 220.000 spurningar í leiknum.  Ef keppendur tengjast QuizUp í gegnum Facebook þá geta þeir skorað á vini sína eða fengið leikinn til að velja fyrir þá hinn fullkomna andstæðing. Hver viðureign í QuizUp stendur yfirleitt yfir í minna en eina mínútu. Keppendur fá sjö spurningar og hafa að hámarki 10 sekúndur til að svara. Sá sem svarar fleiri spurningum rétt sigrar. Í lok hvers leiks birtist keppandanum samantekt yfir þróun leiksins, en þar má sjá stigafjölda, lokabónus, sigurbónus og heildarbónus, sem leggjast við og hækka viðkomandi á heildarstigalistum QuizUp. Það bætist sífellt við í spurningaflóruna og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

quizup2

Fyrir þá sem vilja lesa meira um QuizUp bendum við á að kíkja á grein okkar frá því í nóvember.
Taktu þátt í skemmtilegasta spurningaleiknum með því að ná í appið á Google Play Store. Ef þú ert á iPhone/iPad og hefur enn ekki náð í leikinn, þá er hægt að ná í hann á App Store.