Plantronics Backbeat Fit umfjöllun

Staðreyndir

Plantronics Backbeat Fit eru þráðlaus og vatnsheld heyrnatól fyrir fólk á hreyfingu. Þau nýta sér Bluetooth til að tengjast við snjalltæki og eru með 6-8 klukkustunda hleðslu. Þetta er lanyard hönnun, eða mótuð snúra sem leiðir bakvið eyrun og hálsinn. Eyrnapúðarnir fara inn í eyrun (e. in-ear earbuds) og eru með lykkju til að festa sig inn í eyrunum. Heyrnatólin eru mjög létt eða 24 grömm. Þau eru úr mjúku plasti sem er þægilegt viðkomu og kemur í veg fyrir að snúran fer í köku. Á sitthvorum púðanum eru takkar til að stýra tónlist eða símtölum. Vinstra meginn er Play/Pause takki, sem er hægt að tvísmella á til að fara á næsta lag. Efst á þeim takka er snúður sem er hægt að ýta á stutt til að hækka hljóðstyrk og ýta lengur til að lækka. Hægra megin er takki fyrir að svara og ljúka símtölum. Einnig er lítill snúður þar til að kveikja og slökkva á heyrnatólunum (og para þau). Þessi tól eru að hluta til vatns- og svitavarin með P2i nanótækni, sem er nauðsynlegt í íslenskt sumar. Með heyrnatólunum fylgir neophrene budda til að geyma tólin í eða snjallsíma.

BackBeat FIT Case

Skoðun

Hleðslan endist mér í yfir sex tíma í tónlistarafspilun, sem er skref upp fyrir mig frá Backbeat Go2 sem ég á og er nokkuð þægileg lengd. Það tekur smá tíma að koma heyrnatólunum fyrir á þægilegan máta, en þegar þau passa þá eru þau pikkföst. Þessi tól henta því einstaklega vel í skokk, ólíkt öðrum tólum fara inn í eyru og mjaka sér út hægt og rólega við skokk. Lanyard heyrnatól henta mér reyndar ekki það vel þar sem þau fara illa með hjólahjálmi, en þau eru frábær í rækt og skokk. Hljóðið er mun öflugra en í Backbeat Go2 og hér er fínn bassi og sterkur hljómur. Ég þurfti að lesa bæklinginn til að fatta hvernig takkarnir virkuðu, því þeir eru frekar óhefðbundnir. Það hefur ekki gerst í mörg ár fyrir mann eins og mig. Buddan sem fylgir með er teygjanleg og passaði á nokkra síma sem ég var með í prófunum. Ég hélt að ég myndi ekki nota hana, en ég endaði á því að taka hana nokkrum sinnum með í skokk. Hún er þægileg og nokkuð vatnsheld. Hönnunin er alveg nokkrum klössum fyrir ofan önnur tól Plantronics og greinilega eitthvað að gerast í þeim málum hjá þeim. Það þarf reyndar ekki að gera mikið meira en að gefa út tæki í grænum lit til að heilla mig.

Plantronics Backbeat Fit eru kraftmikil þráðlaus heyrnatól, með góða rafhlöðuendingu og haldast vel í eyrum við mikla hreyfingu. Þau henta ekki í sport þar sem þarf að vera með hjálm.

Simon gefur Plantronics Backbeat Fit fjórar stjörnur af fimm mögulegum.