Ótakmörkuð símtöl og SMS á kostnað gagnamagns

Vodafone eignaði sér Facebook íslendinga í síðustu viku með rediceland.com vefsíðunni. Dularfullur niðurteljari blasti þar við manni, sem taldi niður í föstudaginn 28.mars klukkan 23:00. Smá leit á Google gaf manni nokkuð góðar hugmyndir hvað væri í vændum: nýjar þjónustuleiðir með ótakmörkuðum mínútum og smáskilaboðum. Svona eins og gengur og gerist á helstu erlendum mörkuðum. Þessi leið minnir helst á herferð Vífilsfells fyrir nokkrum árum, þar sem nýr Coca Cola drykkur var kynntur á svipað leyndardómsfullan hátt. Við erum kannski ekki alveg sammála því að nýjar þjónustuleiðir séu svona mikil bylting né eigi skilið leyndardómsfullan niðurteljara til að kynna sig. Þetta virkaði þó og dróg að sér fullt af athygli (þrátt fyrir smá hnökra í byrjun).

Bylting?

Breytingin með Vodafone Red var sú að nú mælir fyrirtækið ekki lengur símtöl og smáskilaboð, heldur eingöngu netnotkun. Vodafone boðar því ótakmörkuð símtöl og SMS og eru pakkarnir 500 MB, 2,5 GB og 5 GB. Svipuð þjónustuleið hefur verið í boði um nokkurt skeið frá Alterna, en þar fást ótakmarkaðar mínútur og smáskilaboð ásamt 1 GB netnotkun. Síminn kynnti svo á fimmtudaginn, daginn áður en Vodafone Red niðurteljaranum var lokið, nánast sömu þjónustuleiðirnar. Tal kynnti svo til leiks svipaða þjónustu og hinir sem kallast Endalaust Tal. Hjá þeim eru ótakmörkuð símtöl og SMS með 250 MB gagnamagni með fjölbreyttari gagnamagnsþrepum. Byltingin felst í því að nú hafa Vodafone, Tal og Síminn öll skipt yfir í ótakmörkuð símtöl og SMS, en hækkað verðið á gagnamagni umtalsvert. Lítill fugl hvíslað til okkar að Nova muni svara þessu í vikunni.

Hver er munurinn á leiðum Vodafone og Símans?

Í fyrstu virðist Vodafone RED og nýju þjónustuleiðir Símans vera þær sömu. Munurinn er hinsvegar sá að Vodafone hefur sett inn allskonar aukaþjónustur inn í Vodafone RED. Þar má helst nefna Vodafone Protect (vírusvörn), Vodafone Contacts (tengiliðabók), Vodafone Cloud (afritunarlausn) og Vodafone Guardian (aðgangsstýring fyrir börn). Þar að auki bjóða bæði fyrirtækin upp á að áskriftarleiðin sé samnýtt gegn gjaldi milli fjölskyldumeðlima og að fá auka 3G kort fyrir önnur tæki heimilisins.

Flestar þessar aukaþjónustur eru í boði annarstaðar, án endurgjalds. Það þarf því ekki að hlekkja sig við fjarskiptafyrirtæki með skýjalausnum. Dropbox, Google+, Skydrive, iCloud og Google Contacts hafa verið til mun lengur en Vodafone Cloud, sama hvar þú ert með farsímaáskriftina þína.

Ekki sitja allir við sama borð

Vodafone RED aukaþjónusturnar eru fín heildarlausn fyrir þá sem vilja vera með allt á sama stað. Það verður þó að athuga hvort að þjónusturnar séu í boði á því stýrikerfi sem snjalltækin þín keyra á. Við nánari athugun kemur í ljós að ekki virka allar þjónusturnar á öllum snjalltækjum. Ef öll tæki heimilisins keyra á Android þá ertu í góðum málum, en sért þú á iOS minnka möguleikarnir. Vodafone Cloud og Contacts er í boði á báðum kerfum, en Vodafone Protect og Guardian virkar eingöngu á Android símum. Sértu með Windows Phone færðu ekkert af öppunum, en þó stendur á síðunni þeirra að Contacts og Cloud séu væntantleg fyrir Windows Phone.

Verðsamanburður

Vodafone býður upp á þrjár mismunandi Vodafone Red þjónustuleiðir: S, M og L. Í öllum pökkum eru ótakmarkaðar mínútur og smáskilaboð (innanlands, óháð kerfi). Svo velur maður sér mismunandi mikið gagnamagn: 500 MB, 2,5GB eða 5GB. Pakkarnir kosta 5.990, 8.990 og 10.990 kr. Hægt er að deila Vodafone Red innan fjölskyldu, allir fá ótakmarkaðar mínútur og smáskilaboð en deila gagnamagninu. Borga þarf 2.990 kr. fyrir hvern fjölskyldumeðlim. Einnig er hægt að fá hliðarkort fyrir spjaldtölvu eða önnur tæki, til að deila gagnamagninu. Greiða þarf fyrir hliðarkortið 490 kr./mánuði (frítt fyrir þá sem kaupa Red L).

Síminn býður upp á mjög svipaða þjónustu. Þar er gagnamagnið þó minna. Síminn er með 500 MB, 1 GB og 3 GB og kosta pakkarnir 5.990, 6.990 og 8.990. Það er því hagstæðara að vera hjá Vodafone með 500 MB og 2,5 GB. Valið vandast hinsvegar þegar stærri pakkarnir eru skoðaðir. Síminn er með minna gagnamagn á lægra verði, þannig að það væri hagstæðara sjáir þú ekki fram á að fara yfir 3 GB sem eru í boði þar, en ef þú ætlar þér að nota amk 5 GB þá þarftu að punga út 2 x 1.490 kr. fyrir auka GB og endar kostnaðurinn við pakkann því í 11.970 kr. Þannig að fyrir 5 GB væri betri að vera hjá Vodafone.

Auka gagnamagn í Vodafone RED er örlítið flóknara í útreikningum en hjá Símanum. Þar er það Red S = 250 MB á 690 kr., Red M = 500 MB á 690 kr. og Red L = 1000 MB á 690 kr.

Endalaust Tal er svo með 5 möguleikum af gagnamagni; 250 MB, 500 MB, 750 MB, 1 GB og 3 GB sem kosta 390, 790, 990, 1.290 og 3.190 kr. hver. Ef farið er yfir innifalinn gagnamagnspakka hækkar áskriftin ekki sjálkfrafa í næsta þrep, heldur er rukkarst 35 kr. fyrir hver 5 MB sem er farið umfram! Gagnamagnsáskriftin hjá Tal hækkar því umtalsvert og er ekki lengur hægt að fá 10 GB á 500 kr. Hægt er að bæta við fjölskyldumeðlimum á 2.980 kr og það virðist ekki vera hægt að fá gagnamagnskort fyrir önnur tæki.

Svo má ekki gleyma hinum fjarskiptafélögunum! Alterna býður upp á ótakmörkuð símtöl og SMS með 1 GB af gagnamagni á 4.990, ódýrara en minnsti pakkinn hjá Vodafone. Þar er hægt að bæta við 1 GB eða 5 GB af gagnamagni við og kostar það 1.500 og 2.990 kr., því væri hægt að fá ótakmörkuð símtöl og SMS með 6 GB af gagnamagni á 7.980 krónur, sem er ódýrara en stærstu pakkarnir hjá hinum. Það er hinsvegar einn stór ókostur við að fara þá leiðina: ekkert 4G.

Nova, Hringdu og Símafélagið eru ekki með sama módel og munum við því ekki gera samanburð á þeim í þessari grein, en alsherjar verðsamanburðargrein er væntanleg hér á Simon.is innan skamms.

Hvað þýðir þessi breyting eiginlega?

Stóra breytingin hér eru ekki ótakmarkaðar mínútur heldur hækkun á verði gagnamagns. Tími stórra pakka fyrir lítinn pening er liðinn. Til að fá stóru gagnamagns pakkana (2.5-5GB) hjá Vodafone og Símanum þá þarftu að borga þeim 9-11 þúsund. Íslensku fjarskiptafélögin eru að skipta yfir í þá pakka sem virðast vera ríkjandi í Evrópu. Gagnamagn er farið að skipta mun meira máli fyrir viðskiptavini en taltími og fjöldi smáskilaboða. Með snjallsímum er hægt að sneiða framhjá mínútugjöldum og smáskilaboðum með öppum eins og Hangouts, Facebook Messenger, Viber, iMessage, Facetime og Skype svo eitthvað sé nefnt. Það er meiraðsegja hægt að vera með heimasímanúmer í snjallsímanum og hringja yfir netið. Það að bjóða upp á ótakmarkaðan fjölda símtala og smáskilaboða þýðir ekki mikið fyrir neytendur, þar sem að þeir eru í mun meira mæli farnir að nýta sér netið í símunum. Það verður einnig fróðlegt að sjá hvort að ótakmarkað og endalaust sé í rauninni ótakmarkað og endalaust, en það muna flestir Íslendingar eftir því þegar að erlent gagnamagn var „ótakmarkað“.

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] hefur margt gengið á síðan að við vorum síðast með hlaðvarp. Meðal annars má nefna byltingu á íslenskum fjarskiptamarkaði með nýjum þjónustuleiðum, nýjan HTC One síma, Android Wear stýrikerfi fyrir snjalltæki og Microsoft Office fyrir iPad. […]

Comments are closed.