Nokia X – fyrsti Android-síminn frá Nokia á MWC 2014?

Mikið hefur verið rætt um það upp á síðkastið að Nokia muni, á lokametrunum áður en farsímahluti fyrirtækisins fari yfir til Microsoft, senda frá sér Android síma.

Um er að ræða símtæki sem hefur haft vinnuheitið Nokia Normandy síðan fyrstu fregnir bárust af því í ágúst og að Nokia væri að nota þetta tæki sem hið svokallaða plan-B ef samstarfið við Microsoft myndi ekki skila Nokia því sem það þurfti.

Nú er talið nánast öruggt að símtækið muni verða kynnt á Mobile World Congress 2014 sem hefst seinna í þessum mánuði. Einnig er talið að síminn muni bera heitið Nokia X, en aðrir hafa leitt líkur að því að síminn muni verða hluti af Asha-línunni hjá Nokia og muni verða settur í sölu á þeim mörkuðum sem Asha-línan hefur verið hvað mest áberandi eins og í Afríku, Indlandi sem og öðrum löndum í Mið-Asíu.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum þá hefur Nokia búið til sérstaka útgáfu af Android-stýrikerfinu, líkt og Amazon hefur gert með Kindle Fire-línuna sína. Þetta þýðir að Nokia X mun ekki hafa aðgang að Google Play eða annarri þjónustu á vegum Google. Þess í stað mun þessi Android-útgáfa vera með mikið af því sem Nokia hefur verið að gera vel undanfarin ár og bjóða m.a. upp á Here Maps frá Nokia og jafnvel einhverskonar tónlistarlausn frá Nokia. Ekki hefur verið staðfest hvort að Microsoft hafi einhverja beina aðkomu að þessu verkefni en eins og sjá má hér fyrir ofan þá er símtækið með mjög svipað viðmót og er í Windows Phone-umhverfinu.

Hvað varðar eiginleika tækisins þá er talið að það verði með einfaldan örgjörva og myndavél ásamt því að vinnslu- og geymsluminni verði í lágmarki.

Heimild: Wall Street Journal