Leiðari: Apple gerir allt rangt

Ein af meginástæðum þess að við stofnuðum Símon.is var skortur á gæðum í íslenskri tækniumfjöllun. Því miður hefur það verið þannig að metnaður stóru fjölmiðlanna er sjaldnast mikill. Þýðingar á erlendum greinum er as good as it gets og vanþekking þýðandans á umfjöllunarefninu er oftast vandræðaleg. Gott dæmi um þetta er þessi grein. Hér þýðir (ónafngreindur) blaðamaður mbl.is grein eftir Curtis Prins sem hann birtir á LinkedIn síðu sinni. Greinin gengur í grunninn út á það að Apple sé að tapa. Þeir missa stöðugt markaðshluteild og geta ekki keppt við Google. Þeir hafa ekki vit á að lækka verðið og fara inn á Indlands- og Kínamarkað. Sökum þess hafa fjárfestar snúið við þeim baki, eplabólan mun springa fljótt.

Þetta er algjör steypa. Hvorki þýðandi né höfundur greinarinnar virðist hafa minnsta skilning á Apple, snjalltækjamarkaðnum eða viðskiptum almennt.

Meginrökleysan felst í því að halda að Apple sækist eftir markaðshlutdeild. Aukin hlutdeild er betra, er það ekki? Staðreyndin er sú að Apple hefur aldrei reynt að ná til allra og fátt bendir til þess að stefnubreyting sé yfirvofandi.  Þegar Apple hefur kynnt nýjar vörulínur þá er það rétt að þeir ná oft góðri markaðshluteild – í fyrstu. Það gerðu þeir með iPod, iPhone og síðast með iPad. Þeir ná þessari markaðshlutdeild því annað á markaðnum er, á þeim tímapunkti, annaðhvort ekki til eða óttalegt rusl. Þegar iPhone kom inn á snjallsímamarkaðinn þá var það “næst besta” varla þess virði að eiga. Hluteild Apple varð því fljótt gríðarleg. En eitt fyrirtæki getur aldrei keppt við alla, á öllum mörkuðum á öllum verðbilum. Google náði vopnum sínum og Samsung steig upp. Ódýrir Android símar geta nú skilað 80% af upplifuninni fyrir helming af verði iPhone. Í dag er Apple með 15% af heildar snjallsímamarkaðnum og fátt bendir til þess að þeirra hluti muni stækka.

 

Ef Apple er ekki að eltast við markaðshlutfall, hvað þá?

Apple vill bara rjómann. Apple vill  aðeins keppa við það besta (og dýrasta) og á þeim markaði eru þeir að niðurlægja samkeppnisaðila sína. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða fartölvur, borðtölvur, spjaldtölvur eða síma þá er Apple með yfirgnæfandi markaðshluteild – í dýrustu tækjunum. Í fartölvum hafa þeir náð að halda 30-35% álagningu á meðan aðrir framleiðendur eiga erfitt með að koma út réttu megin við núllið. Þetta sést vel í sölu á iPhone 6. Fyrstu 3 dagana seldi Apple 10 milljón síma. Það gerir tekjur upp á 6 miljarða dollara sem er tæpum milljarði minna en heildartekjur HTC voru í fyrra og talsvert meira en heildartekjur Nokia/Microsoft af sölu snjalltækja síðustu 3 mánuði. 

 

En skiptir markaðshlutdeild máli?

Þótt markaðshlutdeild ein og sér skipti ekki öllu máli þá skiptir hún sannarlega máli. Það þekkir Microsoft með Lumia símana. Þeir hafa ekki náð að elta Apple og Google og sitja eftir með þriðja sætið. Smæð Windows Phone hefur haft þær afleiðingar að fá ný eða áhugaverð öpp skila sér á Windows Phone, a.m.k. ekki strax, sum aðeins sem misgóðar eftirlíkingar og þegar risar á borð við Instagram gefa loks út öpp þá er þeim ekki haldið við jafn vel og á öðrum stýrikerfum. En staða Apple er allt önnur. Appverslun þeirra er sú besta og verðmætasta á snjalltækjamarkaðnum. Það er algjör undantekning ef nýjustu og bestu öppin koma ekki fyrst á iOS og mörg þeira skila sér ekki á Android, hvað þá Windows Phone. Það skiptir í raun ekki máli hvaða mælikvarði er notaður: fjöldi appa, sölutölur, velta þá er verslun Apple sú lang farsælasta. Það er því engin þörf fyrir Apple að stækka markaðinn of mikið með því að elta Android og aðra í ódýrum tækjum.

 

Ok, en hvað með Kína?

Meginrök greinarinnar eru þau að Apple sé ekki að einbeita sér nógu mikið að Kína. Nú er það þannig að Tim Cook, forstjóri Apple hefur oft lýst því yfir að vöxtur Apple verði í Asíu. En það þýðir ekki að Apple muni fara inn á Kínamarkað með því að elta heimamenn í kapphlaupinu á botninn. Apple mun aldrei gefa út “ódýran” síma, hvorki í kína né annarsstaðar. Þeir munu kannski gefa út ódýrari síma en hann verður aldrei ódýr í samanburði við samkeppnina. Þegar Apple mun fara inn á Kínamarkað af fullri hörku þá verður það til þess að ná sömu stöðu og annarsstaðar: fleyta rjómann, ekkert annað. Þeir sem halda að Kínamarkaður sé fátækur ættu að athuga betur. Millistéttin í Kína er fjölmennari en heildaríbúafjöldi Bandaríkjanna.

 

Þannig að Google er þá að tapa?

Nei, Google og Apple eru að keppa á sitthvorum markaðinum. Apple selur vélbúnað og græðir á tá og fingri. Google gefur Android stýrikerfið og Chrome vafrann til að koma sem flestum á netið. Fleiri netnotendur = fleiri google.com notendur = fleiri seldar auglýsingar. Mikið af þessum hugbúnaði er í boði fyrir Apple enda eru iOS notendur verðmætari fyrir Google en Android notendur.

Það er því miður þannig að misvitrir sérfræðingar munu halda áfram að standa á hliðarlínunni og benda á að Apple sé að gera þetta rangt eða hitt. Á meðan mun Apple halda sínu striki, mannað hæfasta fólkinu í hverri stöðu og halda áfram að gera allt rétt – með því að gera allt rangt.

Höfundur er ritstjóri Símon.is

Mynd: Business Insider