Samsung Galaxy Alpha umfjöllun

Eftir mörg ár af því að framleiða snjallsíma sem eru ekki iPhone, þá hefur Samsung hannað síma sem svipar til iPhone 5. Samsung hefur sérhæft sig í því að búa til síma sem eru stærri en iPhone, með fleiri fídusum en iPhone. En Galaxy Alpha er fyrsti síminn frá Samsung með álkanta, minni skjá en gengur og gerist (4,7” sem var einu sinni risastórt) og er samt ekki útvötnuð minni útgáfa af stærra flaggskipi (e. mini). Síminn er með tvo fjórkjarna örgjörva (Exynos 5 Octa 5430), 2GB vinnsluminni, 12 megadíla myndavél, tvítóna flass og 32GB geymslupláss. Þetta eru flottar tölur og fallegur kassi.

Hönnun

Þetta er fallegasti Galaxy síminn sem við höfum handleikið. Þetta er fyrsti Galaxy síminn með ytra byrði sem er að hluta til úr málmi. Kantarnir á símanum eru úr áli, sem er með hallandi skurð rétt eins og iPhone 5.

Þetta er klárlega Galaxy sími, sem er mjög líkur iPhone 5.

Bakið er áfram úr plasti og er hægt að taka það af til að skipta um rafhlöðu og bæta við geymsluplássi. Á bakinu er hjartsláttarmælir, rétt eins og á Galaxy S5 og Note 4. Framhliðin er alveg eins og flestir Galaxy símar, með langan heim-takka og tvo snerti-takka sitthvoru meginn við hann til að fara til baka eða sýna opin forrit. Bakið er aðeins dýpra en kantarnir, og er því síminn þægilegur í hendi þrátt fyrir hvassa álkanta ólíkt fimmunni.

Alpha er rosalega þunnur eða 6,7 mm, sem gerir hann þynnri en ofurþunna iPhone 6. Hann er léttur eða 115 grömm, sem er 14 grömmum léttara en iPhone 6. Síminn er með 4,7” skjá, sem er einmitt sama stærð og á iPhone 6. Síminn er því frábær í hendi og það fer lítið fyrir honum.

Viðmótið, Samsung TouchWiz, skánaði talsvert þegar S5 kom út. Það er svipað á Alpha og er flatt og fínt. Búið er að taka til í stillingarvalmyndinni til einföldunnar. Öll tákn orðin flöt, einfaldari og flöt. Alpha er með Android Kitkat en við eigum von á því að Lollipop uppfærsla komi snemma á næsta ári. Við erum ekki hrifnir af TouchWiz, en það er alla vega hægt og rólega að skána.

Skjár

Þetta er frábær skjástærð. Stærðir á bilunu 4,7” til 5” eru í uppáhaldi hjá okkur. Símar í þessari stærð eru góðir í hendi og gera vöfrun mun betri en á skjáum undir 4”. Skjárinn er með 720p upplausn, sem er alveg nóg fyrir þessa stærð. Eins og allir aðrir Galaxy skjáir, þá er þetta OLED skjár með djúpa svarta liti en sterka og bjarta liti. Það er þó hægt að stilla litina þannig að þeir séu aðeins eðlilegri, eða nær rauntónum. Skjárinn er bjartur og kemur vel út í mikilli sól. Það er þó einn veikleiki, sem ég reyndar tók ekki mikið eftir, og það er pentile grindin sem hefur áhrif á skerpu. Ég tók líka eftir því að síminn er alltaf aðeins of seinn að stilla birtu í takt við aðstæður, ef hann er stilltur á sjálfvirka birtustillingu. En það er algert smáatriði. Skjárinn fær toppeinkunn frá okkur.

Myndavél

Myndavélin er skörp og nokkuð góð, en á erfitt með að taka myndir við litla birtu og hreyfingu. Myndavélin er ekki alveg nógu snögg að ná fókus og smella af. Flassið getur þó hjálpað við að taka betri myndir við litla birtu og er það vel stillt þannig að það taki ekki yfirlýstar myndir.

Rafhlaða

Rafhlaðan er aðeins minni en gengur og gerist á Galaxy síma. Hún er 1860 mAh, sem er svipað og stærð og iPhone hefur verið með. Þetta er 1000 mAh minna en Galaxy S5 býður upp á. Endingin er í takt við það. Síminn var að endast mér rétt fram yfir kvöldmat, sem er mjög svipað því sem ég þekki af iPhone sem ég hef aldrei verið mjög ánægður með. Það kom svo út uppfærsla á því tímabili sem við vorum að prófa og endingin er rétt yfir meðallagi. Við erum mjög ánægðir að sjá Samsung bregðast svona snögglega við.

Samantekt

Þetta er frábær og fallegur sími, en hann þyrfti að vera ódýrari til að seljast í bílförmum. Síminn er seldur á 110 þúsund á Íslandi og á sama tíma getur þú fengið iPhone 6 á 120 þúsund, sem er með betri myndavél, betri skjá, svipaða hleðslu og bestu öppin. Ef hann færi undir 100 þúsund, þá væri þetta líklega ein bestu kaupin í dag.

Simon gefur Samsung Galaxy Alpha fjórar og hálfa stjörnur af fimm mögulegum.