Sony Xperia Z1 compact örumfjöllun

Sony Xperia Z1 compact er minni útgáfa af snjallsímanum Sony Xperia Z1 sem kom út fyrir ári síðan. Z1 compact er með 4,3″ skjá (niður um 0,7″), 137 grömm á þyngd (33 grömmum léttari) og fer mun betur í hendi stóri bróðir. Ólíkt öllum öðrum minni útgáfum af flaggskipum, þá er þessi með sama innvols og stóri bróðir. Allar aðrar útgáfur eru útvatnaðar og hægar útgáfur af stóru bræðrum sínum. Xperia Z1 compact er með öflugan örgjörva (Snapdragon 800), 20 megadíla myndavél, 2GB vinnsluminni, 16GB geymslupláss, microSD minniskortarauf og nýja skjátækni Sony (triluminous og X-Reality engine).

Hönnun

Þetta er alveg eins sími og Xperia Z1, nema minni. Hann er með hert gler á fram- og bakhliðum sínum og plastkanta. Ég var ekkert sérstaklega ánægður með plastkantana, þar sem þeir rispast hratt. Það er búið að laga þetta á Xperia Z2 og Z3, sem eru nú með álramma í kringum símann. Síminn er í raun næstum alveg eins og að framan og aftan, og upp og niður. Það er því erfitt að átta sig á því hvernig hann á að snúa þegar hann er gripinn úr vasa. En maður venst því fljótt að finna takkana til að stýra sér. Mér finnst síminn aðeins of þykkur og væri til í að sjá næstu útgáfu missa nokkra millimetra.

xperia-z1-compact-hero-white-1240x840-20db492519f2618c5539e86c300d1dbb

Hann er vatns- og rykheldur, sem er frábært í sportið. Samkeppnisaðilar þeirra eru margir byrjaðir að elta þennan fídus og er nýi Galaxy S5 síminn frá Samsung kominn með þetta. Maður heldur að þetta sé óþarfi en það kemur á óvart hvað þetta er nytsamlegt því þessi sími hentar íslenskri veðráttu einmitt mjög vel. Það eru þó flipar yfir öllum raufum (hleðslu, minniskorta og símkortaraufum) sem getur verið hvimleitt.

Mér finnst síminn ágætlega vel hannaður, en efnisval í ytra byrði ekki nógu gott. Það sést mjög fljótlega á símanum og ég mæli helst með hulstri.

Myndavél

Myndavélin er alveg eins og á Xperia Z1. Mjög góð, snögg og góða sjálfvirkni (auto mode). Myndavélatakkinn er snilld og ætti að vera á öllum öðrum símum. Það er mun þægilegra að taka mynd í hönskum og í skíta veðri með takka. Svo er það líka bara þægilegra yfir höfuð og þú getur alltaf tekið mynd með skjátakka. Myndavélin er mjög góð við flestar ástæður og myndirnar mjög skarpar.

Rafhlaðan

Það er einstaklega stór rafhlaða í þessum síma miðað við stærð, eða 2300 mAh. Sem er sama stærð og á LG nexus 5, sem er með 5″ skjá og FullHD upplausn. Endingin er frábær. Síminn náði að endast mér vel út dag og fram að miðnætti, ólíkt nexus 5 sem endist fram yfir kvöldmat. Minni skjár og lægri upplausn getur gert ýmislegt.

Samantekt

Frábær sími í réttri stærð, með flotta myndavél, endalausa hleðslu og góð afköst.

Kostir

  • Frábær myndavél
  • Hentar vel í hendi
  • Frábær rafhlöðuending

Gallar

  • Síminn rispast auðveldlega
  • Venjulegur skjár
  • Aðeins of þykkur (sem er búið að laga í Z3 compact)

Simon gefur Sony Xperia Z1 compact 4,5 stjörnur af 5.