Samsung Galaxy S5 umfjöllun

Galaxy S línan er vinsælasta snjallsímalína heims í dag. Hver síminn á fætur öðrum hefur selst ótrúlega vel víðs vegur um heiminn. Samsung státar sig af yfir 50% markaðshlutdeild á Íslandi í dag og er S línan sú vinsælasta. Galaxy S er venjulega flaggskip Samsung hvers tíma, svona ef maður telur Galaxy Note ekki með. Hún hefur upp á að bjóða hágæða skjá, best-in-class myndavél og leifturhraðan örgjörva. Síminn var tilkynntur með glæsibrag af Tæknivörum og Tjarnargötu með röð myndbanda sem tengdust öll saman á vefsíðunni fimman.is, þar sem fólki var boðið að velja á milli þriggja mismunandi enda. Simon fékk að prófa S5 í nokkra daga og hér eru okkar niðurstöður.

P1050766

Spekkar

Galaxy S5 bregst ekki og kemur vel spekkaður. Síminn er tikkar í öll box: nýr fjögurra kjarna Snapdragon 801 örgjörvi, 2GB vinnsluminni, 16 megadíla myndavél, micro SD minniskortarauf og með útskiptanlega rafhlöðu. Þetta eru allt hænuskref; aðeins hraðari örgjörvi, aðeins betri myndavél og allt hitt þekkjum við.. eða hvað?

Samsung er þekkt fyrir að henda inn fídusum til að standa fram úr samkeppninni. Galaxy S5 kemur með nokkrar nýjungar og þá ber helst að nefna fingrafaraskanna og púlsmæli. Takkinn á framhliðinni neðst á símanum sem er notaður til að komast heim eða til að kveikja á S-Voice er nú með fingrafaraskanna svipaðan og er á Thinkpad og Latitude fartölvulínunum. Þeir náðu líka að stela eldingunni frá Sony og er S5 vatns- og rykvarinn. Hann er meira segja með sterkari vörn, eða IP68 (Sony er með IP57 í Xperia Z2). Þetta þýðir reyndar að hleðsluraufin er nú varin með flipa sem þarf alltaf að opna til að hlaða símann. Við munum mörg hve þreytt það varð á fyrstu Lumia símunum og ég sá sjálfur ófáa flipalausa Lumia síma (þeir brotnuðu af). Þetta er samt góður fídus og hentar vel fyrir íslenskt sumar.

Hátalarinn á símanum er mjög slappur. Hann er aftan á símanum og hljóðið er frekar veikt. Hátalarinn á það til að lokast af og þá er hljóðið enn veikara. Við værum til í að sjá Samsung taka á þessu máli.

Lifestyle_06

Fingrafaralesarann er hægt að tengja við aflæsingu símans og samþykkt kaupa í gegnum PayPal og Google Play Store. Ef þú hefur prófað iPhone 5S fingrafaralesann, þá hlærð þú að þessum. Ef ekki, þá er þetta þokkalegur fídus. Þú getur lesið inn allt að þrjú för. Strjúka þarf yfir takkann á ákveðnum hraða til að nema farið. Ég var lengi að venjast hraðanum og þetta var ekki að ganga nema í öðru hverju tilviki fyrst. Svo vandist ég og þetta fór að aukast. Ég var samt aldrei sáttur, enda búinn að prófa iPhone 5S. Fínt að hafa, en ófullkominn fídus.

Púlsmælirinn er hinsvegar algert grín. Það þarf að vera alger þögn til að púls nemist. Mælirinn er aftan á símanum undir myndavélinni. Þú þarft að einbeita þér svo mikið til að þetta virki og það tekur stundum svo langan tíma að þú ert næstum kominn í hvíldarpúls þegar þú loks færð mælinguna. Þetta er samt líka fínt að hafa, en aftur ófullkominn fídus.

Það er líka skrefateljari innbyggður í símanum, sem ég reyndi ekki mikið á, en ég hef lesið mig til um að hann sé vægast sagt ónákvæmur. Hann býður afhroðs í flestum umfjöllunum.

Jæja, þetta eru ekki góð meðmæli, en það eru ekki aðrir símar á markaði sem bjóða upp á þessa eiginleika. Það er ekki eins og þetta sé að þrýsta upp verði Galaxy S5 upp fyrir allar hellur. Það er örugglega einhver sem nær að lifa með þessari ófullkomnun í sátt og samlyndi.

Hönnun

Síminn stígur líka hænuskref í ytri hönnun og hefur lítið breyst frá Galaxy S4. Orðrómur var á reiki um að S5 myndi vera byggður úr einhvers konar málmi, en sú var ekki raunin. Bakhliðin hefur reyndar fengið flotta uppfærslu og er nú með gúmmíáferð og ásett litlum holum. Hann er því þokkalegur í hendi og ekki eins sleipur og S4. Hann er samt mjög stór og erfitt er að nota hann einhendis. Hann er þó mun skárri en Xperia Z2, Galaxy Note 3 og HTC One M8. Gulllitaði S5 hefur reyndar fengið talsverða gagnrýni, því sá litur lætur bakhliðina líta út eins og húðlitaðan plástur. Við höfum samt heyrt að hver einasta sending af S5 gull seljist upp hér á landi, þannig það eru ekki allir að tengja við plásturinn.

SM_G900F_copper GOLD_13

Samsung stígur hinsvegar engin hænuskref í viðmótshönnun. Það er búið að gerbreyta viðmótinu. Samsung er hér að elta samkeppnina og skiptir yfir í flatt útlit. Öll tákn hafa verið uppfærð í flatar kúlur. Það var virkilega tekið til í stillingum, sem var mjög vel þegið. Þetta er frábær breyting, en á sama tíma þá áttar maður sig á því hversu aftarlega Samsung er í raun í þessum málum. Fram að þessu hefur Suður Kóreska glimmerið verið krúttlega hallærislegt og það hefur aðeins gefið viðmótinu sjarma. Kjánalegt hljóð hér og þar, forljót leturgerð og fáranleg tákn fengu öll krúttpassa. Nú þegar Samsung reynir að þroskast í hönnun og skiptir yfir í flata hönnun, sést bersýnilega að þeir eru bara ekki með þetta. Enda er búið að reka yfirhönnuð Galaxy línunnar.

Myndavél

Myndavélin er frábær. Hún er með nýjungum sem gerir símanum kleift að ná fókus á mettíma. Það er hægt að taka myndbönd í 2160p upplausn á 30 römmum og 1080p upplausn á 60 römmum og 120 römmum. Með 120 römmum nær maður að gera slow-motion myndbönd, sem fylltu Facebook vegg íslendinga þegar iPhone 5S datt niður í verði rétt fyrir jól. Blessunarlega þá gerðist það ekki aftur með tilkomu S5, því að voru leiðinlegustu myndbönd sem ég hef séð (sorry allir).

[slideshow_deploy id=’18460′]

Rafhlaðan

Rafhlaðan er eiginlega orðin það mikilvægasta hjá mér þessa dagana. Síminn minn er að ná svona 10 tímum. Ég er farinn að hafa hann í hleðslu upp úr hádegi í vinnunni, svo ég taki hann með mér fullhlaðinn heim. Hann er svo dauður fyrir miðnætti ef ég fer að hreyfa mig (GPS og Bluetooth éta hleðsluna). Apple og HTC hafa viljandi fórnað rafhlöðuendingu til að ná niður þykkt. Galaxy S5 er aðeins meira á mínu bandi og er með 2800 mAh rafhlöðu, sem er aðeins minna en 3000 mAh rafhlaðan í LG G2. Endingin er mjög góð, en þó aðeins lakari en hjá G2 sem er sú besta hjá flaggskipum í dag. Ég náði samt aldrei að láta símann endast fram á næsta dag, eins og G2 bauð oft upp á.

Samantekt

Galaxy S5 gerir allt vel og tikkar í öll box. Frábær sími en lítil þróun frá S4. Ég held samt að Galaxy S-línan sé að deyja, eða á leiðinni í endurvakningu. Það er búið að reka hönnuðinn sem feðraði Galaxy S. Viðmótið hefur verið tekið í gegn. Ný hönnun er líklega á leiðinni, enda þarf nýjan hönnuð. Heyrst hefur að Galaxy S Prime sé á leiðinni, sem verður úr áli.  Ég bíð spenntur eftir Galaxy S6, því S5 náði ekki að heilla mig. Ég er mun spenntari fyrir HTC One M8, LG G3 og Xperia Z2. LG G3 og Xperia Z2 eru alla vega með mun betri rafhlöður.

Það er samt mjög auðvelt að mæla með þessum síma, enda stendur hann fyrir sínu.

Kostir

  • Frábær skjár, líklega sá besti í dag
  • Hröð og frábær myndavél
  • Drekhlaðinn fídusum
  • Aðeins skárra viðmót
  • Mun skárri bakhlið

Gallar

  • Erfitt að nota einhendis
  • Fingrafaralesinn ónákvæmur
  • Púlsmælir frekar takmarkaður

Simon gefur Samsung Galaxy S5 fjórar og hálfa stjörnur af fimm mögulegum. 

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] hefur gefið út að Galaxy S5 flaggskipið fái uppfærslu í desember og fyrri flaggskip Galaxy S4 og S3 fái uppfærslu snemma […]

Comments are closed.