HTC One umfjöllun

HTC hefur ekki haft það gott undanfarið. Starfsmenn þeirra voru handteknir fyrir fyrirtækjanjósnir og sakaðir um að stela hönnunum frá HTC. Markaðshlutdeild þeirra í Bandaríkjunum er næstum horfin þökk sé Samsung Galaxy S símunum. Fyrirtækið er hægt og rólega að verða aftur að því sem það var: „niche“ snjallsímaframleiðandi frá Taívan, þekktir fyrir hágæða hönnun. HTC gaf út frábæra snjallsímalínu í fyrra sem hét One og voru þar þrír þéttir símar (X, S og V) sem fengu allir góða dóma (hér og erlendis). Sú lína fór því miður aldrei á flug í sölu. HTC gaf nú út í sumar arftaka One X sem heitir einungis One. One er Android flaggskip sem er útbúið nýstárlegri myndavél, hátölurum sem vísa framávið og 4G neti. One hefur fengið frábæra dóma erlendis en hvað finnst okkur hér hjá Simon?

HTC-One-Black-White

Hönnun

One er vel hannaður og er grunnurinn er álskel sem hefur verið bútuð niður og plasti sprautað inn á milli í samskeytin. Síminn kemur í svörtu og hvítu, og eru þeir báðir mjög flottir. Sá hvíti er þó mest megnis ál-litaður og minnir mikið á MacBook fartölvulínuna. Framhliðin minnir aðeins á bakhlið iPhone 5, sem er sérstakt. Framan á símanum eru tveir viðóma hátalarar, efst og neðst. HTC bregður líka út af hvað varðar snertitakkaval og býður einungis upp á til baka-takka og heim-takka. Á milli þeirra situr svo HTC lógó sem gerir ekkert. Til að fá upp fjölverkavalmyndina þarf að ýta tvisvar á heim-takkann, sem er ekki þægilegt. Bakið á símanum er nær allt úr áli, og efst situr mjög stór linsa og flass. Bakið er kúpt og er síminn þunnur á alla kanta (4 mm) en er 9,3 mm þykkur í miðjunni. Síminn fer mjög vel í hendi þökk sé þessu kúpta baki en er þó smá sleipur út af álinu. Þyngdin og áferðin af álinu gerir þó símann símtólslegri og alvarlegri, sem er kærkominn breyting frá plastinu sem er vinsælt í dag. Álsímar eiga þó til með að sýna allar rispur og þá sérstaklega litað ál (t.d. svarta útgáfan) eftir nokkra mánuði af notkun.

nexusae0_HTC-One_3V_Black

Efst á símanum er að finna ræsihnapp, sem er einnig IR sendir (innrauður) sem getur fjarstýrt sjónvörpum og fleiri tækjum. Við eigum mjög erfitt með staðsetningu hnappsins en við fyrirgefum því næstum því út af þessum skemmtilega eiginleika. Svona hnappar eiga heima á hægri hlið síma eða framan á þeim. Þetta er stærsti galli símans. Á heildina litið, gullfallegur snjallsími með nokkra vankanta.

Viðmót

HTC þróar sitt eigið viðmót ofan á Android stýrikerfið, sem heitir HTC Sense og kemur útgáfa 5 á One. Sense var mjög oft tekið sem dæmi um hvernig á EKKI að búa til viðmót ofan á Android. Það hefur komið langt síðan Sense 3, sem var ömurlegt og flókið. Það er búið að einfalda það til muna or er það nú stílhreint og fallegt. Það er samt engan vegin nógu gott og ég gat ekki vanist því. Sense býður upp á frétta og samfélagsmiðlaveitu sem heitir Blinkfeed. Blinkfeed tekur saman allar helstu fréttir sem þú hefur áhuga á og tengist við samfélagsmiðlana þína og tekur efni þaðan. Blinkfeed er líka heimaskjár viðmótsins, sem er með öllu óskiljanlegt því það er óþægilegt í notkun. En ekki örvænta, það er hægt að færa heimaskjáinn yfir á annan skjá. Myndavélaviðmótið er frábært og býður það upp á Zoe myndatökur. Zoe eru 20 sekúnda „lifandi“ myndir eða myndbrot.

Dæmi um Blinkfeed

Dæmi um Blinkfeed

Ég var tvær vikur á HTC Sense og „rootaði“ svo símann og setti inn Nexus viðmótið. Þetta hentar ekki þeim sem þekkja vel til (e. power users) , en af þeim Android viðmótum sem eru í boði, þá er þetta það næst besta.

Myndavél

Myndavélin er frábær, en öðruvísi. Hún beitir nýrri tækni sem HTC kallar „ultrapixel“. Hún stækkar flöt myndflögunar á kostnað megadíla. Myndavélin er einungis 4 megadíla en nær að gleypa mun meiri birtu við myndatökur. Það þarf því ekki að nota flass í mörgum tilvikum (sem skemmir oftast myndir) við litla birtu. Ég náði ótrúlegum myndum í myrki og má sjá dæmi hér að neðan. Seinni myndin er tekin á Nexus 4 frá LG.

IMAG0034563074_10201433108924925_331906970_n

Viðmótið er mjög gott og býður það upp á áðurnefnt Zoe, Best shot (margar myndir teknar og þú velur þá bestu), myndbandsupptökur á sama stað og ljósmyndun, sjálfvirkan fókus og margt fleira. Myndirnar eru þó ekki eins skarpar og af símum með yfir 8 megadíla myndavélar. Það hefur áhrif á prentun og stækkanir á myndum af símanum, en skiptir litlu máli fyrir internetið. Þvert á móti, þá fannst mér þetta virka betur en 12MP myndavélarnar sem ég hef prófað. Myndirnar mínar fara bara á netið. Ef ég ætla að prenta myndir þá eru þær líklega teknar upp í stúdíói.

IMAG0013

Skjárinn er alveg hreint frábær og líklega besti skjárinn sem þú færð í dag á snjallsíma. Hann er 4,7” SuperLCD3 skjár með Full HD upplausn (1080×1920). Hann er bjartur og góður og virkar fínt í sól.

Hljóð

Ég keypti þennan síma út af hátölurunum. Ég er búinn að bíða eftir síma með viðóma hátalara sem vísa framávið. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Þetta eru frábærir og sterkir hátalarar. Snapchat, YouTube og símtöl á hátalara eru öll ótrúlega skýr. Ofan á þetta allt er síminn útbúinn Beats hljóðblöndun, sem ýkir háa og lága tóna. Það gerir reyndar lítið sem ekkert fyrir mig og er „gimmick“ að mínu mati (það fer samt vel með þráðlausu Beats heyrnatólunum mínum). Ég stilli sjálfur mína tóna með Google Music hljóðlblöndunartólinu.

Almennilegt!

Almennilegt!

Niðurstaða

Þetta er frábær sími. Við hefðum gefið honum fimm stjörnur, en ræsihnappurinn og 4G-leysið hér á landi (HTC verður að uppfæra símann til að opna á 4G) kemur í veg fyrir að síminn fái fullt hús stiga.

Kostir

  • Tekur frábærar myndir við litla birtu
  • Skarpur og bjartur skjár
  • Almennilegir hátalarar!

Gallar

  • Hræðileg staðsetning á ræsihnappi
  • 4G virkar ekki hérlendis virkar fínt eftir smá fikt!

Simon gefur HTC One 4,5 af 5 stjörnum mögulegum.

Samanburður

HTC One kostar 100-120 þúsund krónur hér á landi. Hann kemur reyndar með 32GB geymsluplássi minnst, sem útskýrir verðið. Allt innvols í tækinu er eitt það besta sem þú finnur í dag. Ódýrast færðu hann á 105 þúsund hjá Emobi.is. Síminn keppir við Samsung Galaxy S4, iPhone 5 (ekki lengur reyndar, það verður bráðum 5C), Nokia Lumia 925 og  Sony Xperia Z. Galaxy S4 er nokkuð svipaður nema úr plasti og viðmótið verra (að okkar mati). iPhone 5 er með minni skjá, en fer vel í hendi og er með fullt af öppum í boði. Hann er samt miklu dýrari í 32GB útgáfunni hérlendis. Lumia 925 er með Windows Phone, sem er langt á eftir hinum stýrikerfunum. Xperia Z er vatnsheldur, en kostar 120-130 þúsund með 16GB plássi (hann tekur þó mSD minniskort ólíkt One). Mjög samkeppnishæfur sími, en mun samt ekki seljast neitt í líkindum við Galaxy S og iPhone.

 

3 replies

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] (líklega þann besta í þessari stærð), frábæra rafhlöðuendingu og þægilegt viðmót. HTC One M7 fékk frábæra dóma og M8 er að raða inn stjörnunum hjá kollegum okkar úti. Við höfum rétt fengið að prófa […]

  2. […] One mini er minni útgáfa af HTC One, sem margir vilja meina að sé sími ársins 2013. Við vorum alla vega mjög hrifin af One hér […]

  3. […] og myndavélina og takkana að framanverðu. HTC One var að okkar mati mjög góður sími eins og lesa má í umfjöllun okkar.  Það verður spennandi að sjá hvernig síminn verður þegar hann kemur […]

Comments are closed.