Er OZ á Android handan við hornið?

OZ menn hafa verið duglegir undanfarið að gefa undir fótinn með að Android útgáfa af appinu þeirra sé væntanleg. Fyrir þá sem ekki vita er OZ app sem gerir notendum kleift að streyma íslenskum sjónvarpsstöðvum í beinni útsendingu í spjaldtölvu eða snjallsíma. Einnig er hægt að safna efni í skýjalausn og þannig geyma dagskrárliði og streyma þeim hvenær sem er. Í núverandi iOS útgáfu eru eftirfarandi stöðvar aðgengilegar: Rúv, Stöð 2, Stöð 2 Sport 1/2 (ásamt aukarásum), Stöð 2 Bíó, Stöð 2 Krakkar og Stöð 3. Appið, sem hefur eins og stendur einungis verið til á iOS, hefur lengi verið á teikniborðinu hjá þeim. Á haustráðstefnu Advania sögðu þeir að OZ appið kæmi „í næstu viku“.

Núna eru 3 vikur liðnar og appið er ekki enn komið, en OZ setti nýlega mynd á Facebook af OZ á það sem virðist vera Samsung spjaldtölvu. Textinn sem fylgdi myndinni var: „From the lab… (this is NOT an iPad)“.

OZ Samsung

Steingrímur Árnason sagði á hádegisráðstefnu Ský í lok ágúst að OZ á Android verði sérstaklega hannað með Samsung tæki í huga. Það muni hinsvegar koma til með að virka á öllum Android tækjum með útgáfu 4.1 eða nýrri og á öllum Samsung tækjum með útgáfu 2.2 eða nýrri. Einnig talaði hann um að appið verði hannað fyrir snjallsíma, en ekki sérstaklega fyrir spjaldtölvur.

Ástæðan fyrir þessu er sú að iPad er með yfirgnæfandi meiri markaðshlutdeild á íslenska spjaldtölvumarkaðinum og telur OZ því ekki sérstaka ástæðu fyrir því að hanna  sér spjaldtölvuviðmót fyrir Android. Á núverandi iOS útgáfu er sitthvort viðmótið fyrir iPhone og iPad.

Við bíðum spennt eftir að appið komi út og munum að sjálfsögðu fjalla um það við fyrsta tækifæri.
Áhugasamir geta sent tölvupóst á android@oz.com til þess að skrá sig í prófanir á appinu.