SuperTooth Disco 2 – Mikill kraftur í litlum umbúðum

SuperTooth Disco 2 er nýjasti hátalarinn frá franska fyrirtækinu SuperTooth. Hátalarinn hefur fengið mjög góða dóma á bloggum erlendis og vorum við því ansi spenntir að fá að skoða hann. Hátalarinn er nettur, kröftugur og skemmtilegur. Hann fæst í 6 mismunandi litum og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

face1-4

Það kemur á óvart hve lítill hátalarinn er, rétt um 18 cm á hæð, 10 cm á breidd, 7 cm á dýpt og vegur um 550 grömm. Þetta gerir hátalarann mjög meðfærilegan og fyrirferðarlítinn. Hönnunin er stílhrein og flott og það skín í gegn að hann á að vera einfaldur og skemmtilegur. Stærð Disco 2 kemur ekki að sök þegar kemur að hljómgæðum, því að þrátt fyrir að hátalarinn sé lítill kemur mjög góður og kröftugur hljómur úr honum. Það er sennilega vegna þess að í honum eru í rauninni 2 hátalarar að framan og bassahátalari að aftan. Hátalararnir ná að skila af sér 16 watta hljóði og gera það vel. Hönnunin er mjög einföld, það eru fimm stórir takkar og maður kemst í rauninni upp með að nota eingöngu kveikja/slökkva takkann. Hinir takkarnir eru til þess að hækka og lækka hljóðið, pása og skipta um lög. Allir takkarnir virkuðu með Google Music appinu og er mjög þægilegt að geta skipt um lög án þess að þurfa að gera það í snjalltækinu sjálfu.

face1-3

Hátalarinn er með Bluetooth 4.0 stuðning og er sáraeinfalt að tengja öll snjalltæki við hann. Það reyndist lítið mál að tengjast honum með Android og iPhone símum, MacBook Pro fartölvu og Nexus 7 spjaldtölvu. Það eina sem þurfti að gera var að halda kveikja/slökkva takkanum niðri í nokkrar sekúndur, þá finnur snjalltækið  hátalarann og getur tengst honum. Það að hátalarinn noti Bluetooth 4.0 staðalinn verður til þess rafhlaðan endist lengur og drægnin á hátalaranum er betri. Við prófanir í hefðbundinni íbúð í vesturhluta Reykjavíkur dreif hátalarinn um 6 metra í gegnum steypuveggi, en samkvæmt framleiðenda er drægnin allt að 10 metrar. Rafhlöðuendingin var frekar góð og entist hátalarinn í um 5 tíma á hæsta hljóðstyrk og í um 10 tíma á miðlungs hljóðstyrk. Með honum fylgir rafmagnstengi og er hægt að hafa hátalarann í sambandi við rafmagn á meðan hann er í gangi. Hann er þó frekar lengi að hlaða sig, um 4 tíma. Á hátalaranum er hefðbundið 3,5 mm hátalaratengi og fylgir snúra með, þannig að  hægt er að tengja öll tæki við hann.

face1-2

SuperTooth Disco 2 kom okkur virkilega á óvart. Þessi litli, netti hátalari er mjög öflugur og virkaði vel sem eini hátalarinn á litlum vinnustað. Það er auðvelt að tengjast honum og hleðslan á rafhlöðunni endist lengi. Það kom öllum á óvart hve gott hljóðið var miðað við stærð hátalarans og hversu þægileg Bluetooth tengingin var. Eini gallinn sem er að finna við hátalarann er verðmiðinn, en hann kostar 29.900 kr. Hátalarinn er samt sem áður vel þess virði og ég leyfi mér að efast að jafn nettur og þægilegur hátalari finnist á lægra verði en þessu. Hátalarinn fæst í Elko, iStore, Maclandi og iSimanum.

Kostir

  • Lítill og nettur, í mörgum litum
  • Endurhlaðanleg rafhlaða sem endist í allt að 10 tíma
  • Góður og kröftugur hljómburður
  • Þráðlaust Bluetooth 4.0

Gallar

  • Frekar dýr
  • Lengi að hlaða rafhlöðuna

Simon.is gefur SuperTooth Disco 2 4,5 af 5 mögulegum.