Mun kínverskur „knock-off“ framleiðandi kæra Apple fyrir hönnunina á iPhone 5?

Kínverski símaframleiðandinn margómaði Goophone er nú umtalaður fyrir það að eiga möguleika á því að fá lögbann á nýja iPhone símann, sem verður tilkynntur 12. september næstkomandi. Simon.is hefur áður fjallað um kínverska framleiðandann, sem sérhæfir sig einna helst í að búa til Android síma sem líkjast iPhone 4, Galaxy SIII og öðrum háklassa símum. Nú getur framleiðandinn, sem hingað til hefur stolið hugmyndum og útlitum annara, mögulega kært Apple fyrir nýjasta (óútkomna) iPhone símann. Goophone eiga nefnilega fjölda einkaleyfa sem eru byggð á myndum af mögulegum frumgerðum nýja iPhone sem hefur verið dreift víðsvegar um netið.

Myndband sem framleiðendurnir sjálfir virðast hafa sett inn á YouTube hefur gengið milli manna á netinu og sýnir stríðsyfirlýsingu fyrirtækisins á Apple.

Síminn skartar 4″ IPS skjá með 1280 x 720 upplausn, 1.4 GHZ Tegra 3 fjórkjarna örgjörva, 1 GB í innra minni, 8MP bakmyndavél og 1.3 MP fram myndavél. Síminn kemur með Android 4.0 og verður fyrst aðeins fáanlegur í Hong Kong. Símarnir sem þeir hafa nú þegar gefið út og líkjast öðrum háklassa símum eru á verðbilinu 6-24 þúsund, en verðmiði hefur ekki verið settur á símann frá framleiðanda.

Í hinum Vestræna heimi þætti ekki líklegt að slíkur framleiðandi gæti átt högg að sækja á Apple, en þar sem öll einkaleyfin eru gerð í Kína eiga þeir raunverulegan möguleika á því að vinna. Apple á þó mjög mikið af einkaleyfum og eitt sterkasta lögfræðiteymi veraldar, þannig að málið yrði ekki auðunnið. Ef svo færi að Goophone vinni málið yrði lögbann sett á nýja iPhone símann. Þó svo að þessi grein sé í flokknum föstudagsflipp þá virðist þetta vera raunhæfur möguleiki og verður því afar áhugavert að fylgjast með þróun mála í Kína.

Heimild: Goophone og Cnet