Samsung Galaxy Ace snjallsími fyrir lítið

Einn af nýrri símum frá Samsung sem er í Galaxy línunni er Galaxy Ace GT-S5830. Þessi sími er settur sem miðlungssími frá Samsung og hann kemur sterkur inn í sínum verðflokki.

Byrjum á innvolsinu en síminn kemur með 800 Mhz Arm 11 örgjörva og Adreno 200 skjáhraðal. Hann styður, Wifi, 3G, Bluetooth eins og er staðall á Android símum og er með GPS og FM útvarp. 2GB MicroSD kort fylgir en síminn styður allt að 32 GB.

Skjárinn er 3,5 tommur en það er sama stærð og er að finna á iPhone 4 og kemur hann með 320 x 480 punkta upplausn. Gorilla Glass kám og höggvörn, fjölsnertiskjár og Touchwiz v3.0 notendaviðmót. Einnig er vert að minnast á að skjárinn á símanum ber höfuð og herðar yfir þá síma sem eru í þessum verðflokki. Hann er skýr, með hærri upplausn og dýpri litum en flestir ef ekki allir símar sem eru í þessum verðflokki sem stendur.

Þá erum við búinn að lista vélbúnaðinn, en hvernig er síminn í notkun? Síminn kemur með 2.2 (Froyo, en uppfærsla er til í 2.3) af Android og það kom mér á óvart hversu þýður síminn er miðað við verðið. 800Mhz örgjörvinn er að skila sínu en það þarf ekki að fara langt aftur að flestu flaggskipin í Android símum voru með álíka örgjörva.

Útlitslega séð er síminn nettur og fer vel í hendi og í raun hin besta uppfærsla úr venjulegum GSM síma sem hefur ekki kosti snjallsíma. Stærð og umfang símans er álíka og samanburður við 5110 sem allir voru einu sinni með. Þó auðvitað aðeins breiðari en nett hönnun gerir slíkt að ómeðvitaðri breytingu.

Myndavélin er ágæt með 5 Megapixla upplausn og LED flass en mynd hérna með er tekinn úr þessum síma til að sýna gæðin. Hún er viðbragðsgóð og myndir frekar skýrar miðað við síma í þessum verðflokki.

Ending rafhlöðunnar er með betra móti þar sem örgjörvi símans er minni en í stærri símum og með talsverðri notkun þá dugar að hlaða símann annan hvern dag.

Lyklaborðið á skjánum er í minni kantinum þegar síminn er í lóðréttri stöðu en batnar töluvert ef maður heldur á honum lárétt. Fólk með feitari putta hefur kvartað aðeins undan lyklaborði á svona símum og því mismunandi hvort fólk verði pirrað við notkun þess.

Kostir símans eru að þú færð allt sem fylgir góðum snjallsíma fyrir helminginn eða minna sem iPhone kostar þig sem dæmi með sömu skjástærð. Eiginleikar góðs snjallsíma er allstaðar fyrir hendi og verðið sem er um fimmtíuþúsund gerir þennan síma mjög álitlegan.

Við mælum hiklaust með þessum síma fyrir hvern þann sem er að leita sér að góðum síma á sanngjörnu verði. En einnig er þessi sími kjörinn fyrir þá sem vilja fá sér sinn fyrsta snjallsímaog ekki leggja veskið í gjörgæslu fyrir vikið.

Simon.is gefur Galaxy Ace 7,0 af 10 mögulegum í einkunn.

Simon.is á fleiri miðlum

 

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] 610 er ætlað að keppa við snjallsíma á verðbilinu 40 til 50 þúsund og ber þar að nefna Samsung Galaxy Ace og Xcover, LG P970 Optimus Black og HTC Wildfire […]

Comments are closed.