Fékkstu iPhone í jólagjöf? Þetta þarftu að vita

Til hamingju með nýja iPhone-snjallsímann sem þú fékkst í jólagjöf! Það er margt sem er gott að hafa í huga þegar þú ert að fikra þig áfram fyrstu dagana eftir að hafa kveikt á símanum. iPhone frá Apple er líklega einn af einföldustu snjallsímunum sem eru á markaði í dag að því leyti að þú þarft akkúrat enga tæknikunnáttu til að nota hann. Síminn er ekki með opnu stýrikerfi og ef þú ætlar að nota hann án þess að nota ólöglegt “jailbrake”, sem opnar stýrikerfi símanns fyrir breytingum, þá er sáraeinfalt að læra á hann.

Það fyrsta sem þú þarft að gera er að skrá þig fyrir Apple ID, sem er auðkenni eða notendareikningur sem allir Apple-notendur þurfa að vera með í dag. Með Apple ID hefurðu aðganga að App Store versluninni sem og uppfærslum fyrir símann þinn. Síminn þinn notar iTunes-forritið til að sækja uppfærslur og vista afrit af því sem er í símanum þínu. Það þú þarft semsagt að hafa iTunes í tölvunni þinni til að síminn þinn uppfærist.

Svona seturðu upp símann
Uppfærslan sjálf þegar þú kveikir fyrst á símanum þínum er nokkuð einföld. Skref fyrir skref er þér sagt hvað þú ert og átt að gera. Það er valkvæmt hvort þú setjir upp iCloud-reikning þegar þú setur upp símann þinn. Það er sniðug skýþjónusta sem Apple býður upp á sem flestir ættu að geta nýtt sér. Maður þarf hinsvegar að fara varlega ef maður ætlar ekki að borga fyrir þjónustuna því aðeins lítið svæði er ókeypis.

Síminn þinn kemur með flestum stillingum. Þú getur stillt íslenskt lyklaborð með því að fara undir Settings -> General -> Keyboard -> International Keyboards. Ef “Icelandic” er ekki valið þar þarftu að fara í “Add New Keyboard…” og finna Ísland. Ef iPhone er fyrsti snjallsíminn þinn þarftu að vita að til að gera íslenska stafi (eins og ð, þ og ö) heldurðu viðeigandi takka inni, til dæmis t fyrir þ og o fyrir ö, og þá birtast fleiri möguleikar. Þannig geturðu fengið ýmsa aðra stafi en íslenska.

Svona sækir þú apps
Til að sækja apps, eða snjallforrit, ferðu inn í App Store. Tengill er inn í verslunina á skjáborðinu í símanum þínum. Þú þarft að vera innskráð(ur) með Apple ID til að geta sótt apps. Þú þarft að öllum líkindum að slá inn lykilorðið þitt fyrir Apple ID-reikninginn þinn þegar þú ert að sækja þér ný apps. Það er rétt að taka fram að mörg (flest) app kosta einhverja nokkra dollara. Þau eru ekki dýr en margt smátt gerir eitt stórt þannig að það er gott að vera meðvitaður um hvaða app eru sótt.

Mörg app eru líka ókeypis en þá eru merkt “free”. Þú getur sett þau upp í símanum þínum en þá skaltu muna að auglýsingar fylgja flestum ókeypis apps eða þá að þú þarft að borga til að nýta þér alla möguleikana sem appið hefur upp á að bjóða. Það getur verið virkilega pirrandi en svona er það víst þegar maður fær gefins hluti.

Sniðug apps fyrir byrjendur

Instagram var eitt vinsælasta appið fyrir iPhone á árinu.

Simon hefur tekið saman nokkur af bestu apps sem eru í boði fyrir iPhone:

Instagram: mynda-app sem gerir þér kleift að taka flottar, retro myndir sem þú deilir svo til vina þinna í gegnum Appið. Instagram var vinsælasta app í App Store á árinu.
PulseNews: frétta-app sem þú getur tengt þínar uppáhalds vefsíður við. Þú færð svo allar nýjustu fréttirnar beint í símann þinn og allar á einum stað.
PlainText: skrif-app sem þú getur tengt við iPad-spjaldtölvu ef þú átt svoleiðis. Þú getur svo tengt það við Dropbox og sótt skjöl á miðlæga skýþjónustu til yfirlestrar í símann þinn.
Angry Birds: leikur sem hefur vægast sagt notið vinsælda. Leikurinn er líklega þekktasti snjalltækjaleikur sem komið hefur út og þú verður eiginlega að prófa.

Listinn er þó hvergi nærri tæmandi og væri hægt að telja upp fjöldann allan af sniðugum apps. Til frekari glöggvunnar er hægt að skoða lista bandaríska tímaritsins Time yfir 50 bestu apps ársins 2011.