Partíleikir fyrir Android

Þá er helgin gengin í garð og finnst mér því tilvalið að vippa fram úr erminni umfjöllun um nokkur partí öpp. Af minni reynslu þá hef ég spilað marga mismunandi partíleiki í gegnum tíðina sem hafa hjálpað til við að brjóta ísinn og rífa upp stemmninguna í gleðskapnum. Allur gangur er á þessum leikjum og þegar nýr dagur rennur í garð þá eru þeir flest allir mjög heilsuspillandi en þó skemmtilegir á meðan stóð. Núna er hægt að njóta sömu upplifunar með minna umstangi í snjallsímum. Því vil ég benda ykkur á nokkur mjög einföld öpp sem geta hjálpað ykkur að koma efnilegum partíum á gott skrið.

 


 

Flöskustútur – Spin the Bottle
Þetta er rosalega einfalt en þó flott app og leikurinn segir sig sjálfur. Þú einfaldlega snýrð flöskunni með puttanum og fylgist með spenningi á hverjum flöskustúturinn lendir. Appið hentar kannski ekki í hvaða partí sem er en það er gott að eiga þetta app í hendi í góðra vina hópi.

 


 

Teningar – Dice
Oft er einfaldleikinn bestur. Með þessu appi ertu alltaf með teninga á þér. Hægt er að bæta við þeim fjölda af teningum sem þú þarft fyrir þann leik sem skal spila og einnig er hægt að velja allar mismunandi tegundir af teningum. Hægt að stilla hvernig þú kastar teningunum annað hvort með því að smella á skjáinn eða hrista símann.

 


 

Sannleikann eða kontor – Truth or Dare
Þetta er ótrúlega skemmtilegt app sem getur breytt kunningjum í góða vini og góðum vinum í enn nánari vini. Til að byrja með þarf að skrá alla þátttakendur með nafni og kyni. Í appinu er til staðar fjöldinn allur af spurningum og skipunum en þau eru frekar í barnalegri kantinum. Til þess að hita upp andrúmsloftið er valmöguleiki á því að bæta við sínum eigin spurningum og skipunum. Með því getur þú stjórnað hversu langt þú vilt að leikurinn gangi. Þessi leikur er því ekki einungis ætlaður fyrir partí heldur er einnig hægt að nota hann til þess að krydda smá rómantíkina í lífinu eða bara til að drepa tímann.

 


 

Jager
Þetta app fyrir fyrir þá hörðu. Síminn er látinn ganga hringinn og hver og einn dregur spil og hefur hvert spila sína reglu. Það er líka hægt að breyta öllum reglum á spilunum og setja þannig saman sitt eigið drykkjuspil sem gerir þetta app verulega áhugavert og eykur skemmtanagildið allverulega. Þegar öllu er á botninn hvolft gengur leikurinn einfaldlega út á það að drekka, hlæja og drekka meira.

Góða helgi!